144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta litla frumvarp, sem kom inn á þing á dögunum og var kynnt af hálfu hæstv. ráðherra sem afar tæknileg lagfæring á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána frá því í maí sl., hefur að sjálfsögðu gefið tilefni til að fara yfir það hvar þessi framkvæmd öll er á vegi stödd. Nú er hvorki staður né tími til að rifja upp allan málflutning í þessu máli á liðnu vori. Afstaða liggur fyrir í ítarlegum nefndarálitum. Efnahags- og viðskiptanefnd sem hafði málið til umfjöllunar klofnaði í óvenju marga parta. Fjögur eða fimm nefndarálit liggja fyrir, þar á meðal hið gagnmerka nefndarálit 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem stútaði þessari aðgerð, á mannamáli sagt, eða hefði a.m.k. átt að gera það gagnvart öllum sem eru á eitthvað svipaðri bylgjulengd og hann. Það er kostulegt að sjá ýmsa flokksfélaga hans ætla engu að síður að veita þessu áfram brautargengi.

Í umfjöllun í vor voru ýmsir ágallar þessarar aðgerðar dregnir fram. Það liggur fyrir og má vísa til þess sem þegar hefur verið rætt hér að miklar fjármunir renna úr ríkissjóði á næstu fjórum árum og að hluta til til fólks sem er í engum einustu vandræðum með að ráða við skuldbindingar sínar, er sumt verulega tekjuhátt, verulega eignamikið og hefur ekki sætt neinum forsendubresti miðað við allar helstu nálganir á því að skilgreina hann. Þeir sem tóku lán sem um ræðir fyrir löngu síðan nutu á löngu árabili hagstæðrar þróunar þegar neysluverðsvísitala hækkaði minna en launavísitala eða fasteignaverð og má því segja að þeir hafi búið við jákvæðan forsendubrest árum saman, sem ætti þá að koma til frádráttar frá hinum neikvæða að því marki sem menn fallast á að hann hafi beinlínis orðið í slíkum tilvikum á árunum 2008 og 2009.

Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir og var dregið fram í gögnum í fyrra. Því hefur ekki verið mótmælt, herra forseti, og engin ný gögn reidd fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni: Hvar eru gögnin frá Hagstofunni sem átti að rjúka í að afla með nokkrum tilkostnaði til að undirbyggja betur þessa aðgerð og tryggja að hægt væri að fylgjast með því hvernig hún kæmi út? Það bólar ekkert á þeim. Við höfum hins vegar nýleg gögn frá Seðlabankanum sem sýna ánægjulega að eignastaða heimilanna á Íslandi hefur haldið áfram að batna jafnt og þétt og hefur gert það núna þrjú ár í röð, að ég hygg.

Það ótrúlega er að líklegasti hópurinn til að fá mest út úr þessari aðgerð, jafnvel fullar 4 milljónir í niðurfellingu, er einmitt fólk sem er iðulega tekjuhátt, á stórar eignir, er þar af leiðandi með nægilega hátt verðtryggt lán á þeirri eign til að mynda stofn til fullrar niðurfærslu og hefur ekki notið neinna greiðslna sem koma til frádráttar. Það datt út úr 110%-leiðinni, það fór að sjálfsögðu ekki í sértæka skuldaaðlögun og væntanlega ekki í greiðslujöfnun af því að það var ekki í neinum vandræðum og hefur ekki verið allan tímann, fékk jafnvel ekki sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna sem að vísu var mjög almenn en á henni var þó þak við tiltölulega há eignamörk þannig að hún skertist hjá fólki með tiltölulega há eignamörk í skuldlausri eða hreinni eign. Það liggur í eðli þessa máls, þegar lögin eru lesin rétt í gegn og menn rekja sig í réttri tímalínu í gegnum aðgerðina, að eiginlega eini hópurinn sem er líklegur til að fá fulla niðurfærslu er þessi geysilega vel setti hópur, sem var jafnvel svo efnaður að hann fékk ekki sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna en á núna að fá fulla niðurfærslu eða getur fengið það. Svo öfugsnúið er þetta mál.

Á sama tíma hefur núverandi ríkisstjórn dregið umtalsvert úr þeim almenna tekjutengda stuðningi sem hefur verið megintæki stjórnvalda undanfarna áratugi við að aðstoða tekjulágt fólk í eigin húsnæðisöflun, fólk sem er að reyna að eignast húsnæði en er með tiltölulega lágar tekjur. Það eru vaxtabæturnar. Þær verða núna minni en nokkru sinni að raungildi síðan líklega í kringum aldamótin síðustu. Almennar vaxtabætur verða undir 8 milljörðum, ef ég man rétt, en þær voru milli 18 og 19 milljarðar á árinu 2011, sem gera vel yfir 20 milljarða á núgildandi verðlagi. Það er því rétt út með annarri hendinni til tiltekinna hópa og þar á meðal þeirra, eins og ég hef farið yfir, sem eru vel settir, eignamiklir og jafnvel tekjuháir, en tekið með hinni frá þeim sem væntanlega eru áfram í mestri þörf fyrir stuðning, tekjulægri fjölskyldum í landinu sem eru þó að berjast við að eignast eigið húsnæði, svo ekki sé talað um þá sem eru á leigumarkaðnum, sem eru algerlega skildir eftir í þessum efnum — það er annar meginágalli þessa máls.

Ég býð einhverjum stjórnarliða hingað upp í ræðustólinn að útskýra það fyrir okkur af hverju forsendubrestur leigjenda, sem hafa farið í gegnum öll þessi erfiðu ár, er ekki tekinn með í dæmið. Hver treystir sér nú best til þess af hálfu stjórnarliða, aðstandenda þessa máls? Til dæmis hæstv. félagsmálaráðherra? Stærstur hluti leigjenda hefur borið fulla verðbætta leigu og tók á sig verðbólguhækkunina, verðbólgukúfinn, með nákvæmlega sama hætti og þeir sem voru með verðtryggð lán, en á ekki að fá neina úrlausn samkvæmt þessu og hefur í raun ekki fengið. Það má alveg viðurkenna að staða leigjenda í þessum efnum hefur allt of mikið mætt afgangi. Þar er þó hópur sem hefur að vísu notið vaxtabóta, þ.e. þeir sem eru í búseturéttarúrræðum, af þeirri einföldu ástæðu að þeir borga af tilteknum lánum og eru eigendur að íbúðum sínum í tilteknu fyrirkomulagi og hafa verið meðhöndlaðir sem slíkir alltaf þangað til núna. Það er alveg nýtt í sögunni þegar kemur að þessari niðurfærslu höfuðstóls að búseturéttarhöfum, húsnæðissamvinnufélögunum og félagslegum leigufélögum skuli vera hent út. Þeir fá ekki sömu fyrirgreiðslu og aðrir. Ég efast um að það standist lög og væri auðvitað fróðlegt hvort verður látið á það reyna.

Eins og þetta mál var lagt upp átti með einhverjum hætti að vera hægt að nálgast eða útkljá tilgreindan forsendubrest sem hefði orðið. Þannig var talað. Sumir töluðu eins og forsendubresturinn lægi algerlega fyrir, það þyrfti ekkert að ræða það meir, svona væri bara forsendubresturinn með ákveðnum greini og að hann ætti loksins að leiðrétta, sögðu menn. Sömu menn sögðu gjarnan að það hefði ekkert verið gert fyrir fólkið á síðasta kjörtímabili.

Þegar áformin eru kynnt í kjölfar vinnu verkefnisstjórnar eða einhvers hóps í Hörpu með miklum tilþrifum í aðdraganda 1. desember sl. þá var enn verið að glíma við að skilgreina þennan forsendubrest, að hann væri hækkun verðtryggðra fasteignaveðlána umfram efri verðbólgumörk eða viðmið Seðlabankans og á ákveðnu tímabili. Svo kemur frumvarpið. Þá er sá botn dottinn úr málinu. Það er engin skilgreining lengur á einu eða neinu sem heitir forsendubrestur, hvað þá forsendubresturinn. Því var bara hent. Í staðinn er komin pólitísk niðurstaða um að ráðstafa 80 milljörðum — 4 sinnum 20 milljörðum — samtals í vaxtakostnað og niðurfærslu höfuðstóls á fjórum árum sem fer eftir stærð aðgerðarinnar. Hvernig líður mönnum með það? Er það ekki orðin dálítið skrýtin niðurstaða í máli sem var lagt upp á þeim forsendum að það hefði orðið algerlega skýr forsendubrestur sem ætti nú að laga? Menn gáfust einfaldlega upp við það, hentu því og niðurstaðan birtist svona.

Hitt er svo annað mál, frú forseti, og þá kemur aftur að ákvörðun þessara aðgerða, að ég er þeirrar skoðunar að þessi forsendubrestur liggi tiltölulega skýrt fyrir, eins og ég tel eðlilegast að nálgast hann. Situr einhver hluti þeirra sem eru með verðtryggð fasteignaveðlán á íbúðarhúsnæði sínu til eigin nota og fullnægja þar af leiðandi skilyrðum til greiðslu vaxtabóta af þeim lánum enn þá uppi með eitthvert högg sem hefur ekki verið bætt og fyrri úrræði hafa ekki dugað til að jafna með sæmilega sanngjörnum hætti að fullu? Ég held að svarið sé já. Hver er sá hópur? Það liggur líka fyrir í aðalatriðum hverjir það eru og hefur í raun gert síðan haustið 2010. Það eru þeir sem höfðu nýlega tekið fullverðtryggð lán, t.d. miðað við fjárhæðarmörkin hjá Íbúðalánasjóði, og tekið þau það seint að þeir nutu aldrei einhvers tímabils þar sem þróunin var þeim hagstæð. Þeir tóku lánin rétt áður en allt snerist við og þróunin fór að ganga gegn þeim. Hvað kemur í ljós þegar þetta er skoðað og framreiknað? Við komumst að þeirri niðurstöðu í fjármálaráðuneytinu 2010 að það væru um það bil þeir sem tóku lánin frá og með árslokum 2004 og að innan þess hóps væru af eðlilegum ástæðum þeir verst settir sem keyptu sína fyrstu íbúð á tímum ört hækkandi fasteignaverðs og þegar það var um tíma komið langt fram úr endurreiknuðu stofnverði, eins og eðlilegt var að nálgast það á til dæmis of þöndum fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins. Sá hópur átti enga eldri eign til að láta ganga upp í kaupin, sem hefði þá sætt sömu þróun. Þessi hópur er klárlega sá sem verst fór út úr þessu.

Ég hef allan tímann sagt og vil endurtaka það hér þegar söngurinn kemur nú upp að afstaða manna til þessa máls ráðist af því hvort þeir vilji gera eitthvað fyrir fólk í erfiðleikum eða ekki, jafn merkilegur málflutningur og það nú er að bera slíkt upp á þingmenn yfirleitt, að við skulum þá halda áfram að aðstoða þennan hóp. Við vorum að því með hinum gríðarlega háu vaxtabótum á erfiðleikaárunum. Fólki var hjálpað við að ráða við afborganirnar og skuldirnar og það munaði auðvitað gríðarlega mikið um það fyrir tekjulágt fólk, einstæða foreldra o.fl. sem fengu mikinn stuðning eins og sést best á því að þegar best lét var réttur þriðjungur af öllum fjármagnskostnaði vegna íbúðalána greiddur niður á árinu 2011, mun hærra hlutfall hjá tekjulægri hópunum, einstæðum foreldrum o.s.frv.

Því miður mun þessi aðferð sökkva þeim hópi. Hann fær enga sérstaka úrlausn umfram aðra og væntanlega miklu minni og í flestum tilvikum enga vegna þess að þetta er hópurinn sem var búinn að fá hjálp, að sjálfsögðu. Fólkið, sem hafði keypt rétt fyrir hrun og skuldsett sig þá upp í 80%, ég tala ekki um 90 eða 100% af verðmæti íbúðar í hæstu hæðum, fékk yfirleitt út úr 110%-leiðinni sem kemur nú til frádráttar og þar með lýkur þeirri sögu. Þetta fólk fékk gjarnan háa greiðslu í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu sem kemur nú til frádráttar og þar með er það út úr myndinni. Þeim afmarkaða hóp innan þessa mengis, sem við getum vonandi, ef við kynnum okkur staðreyndir málsins, orðið sammála um að raunverulega sé hægt að tala um að hafi setið uppi með forsendubrest, er meira og minna hent héðan út. En fólk sem tók kannski lán 1995, hátt verðtryggt lán, og á stóra eign, búið að borga af láninu allan tímann og mynda verulegt eigið fé, gríðarlega mikið á pappírunum á þeim tímum sem fasteignaverðið var hæst en gekk eitthvað til baka og byrjaði svo að hækka aftur, það fær núna hjálp, sérstaka greiðslu inn á höfuðstól lánsins. Það er mjög undarlegt.

Ég væri mjög ánægður að heyra einhvern aðstandanda þessa máls, t.d. formann efnahags- og viðskiptanefndar eða hæstv. félagsmálaráðherra, koma hingað upp og fara aðeins yfir þetta með okkur. Hvernig forsvara menn þetta gagnvart t.d. búseturéttarhöfunum, að þeim sé hent út? Hvernig forsvara menn að greiðslujöfnunarreikningurinn sé dreginn frá? Hvernig forsvara menn að ekki sé gerð minnsta tilraun til að nálgast hópana sem líklegastir eru þó til að hafa setið uppi með eiginlegan forsendubrest, þá sem tóku lánin á óhagstæðasta tímabilinu eða keyptu sína fyrstu íbúð? Ég vil gjarnan heyra það.

Við höfum bent á ágalla málsins en það hefur verið lítið um svör frá stjórnarliðum. Það er bara hlaupið í almennu áróðurskenndu frasana sem við fengum öll yfir okkur nóg af fyrir síðustu alþingiskosningar, en þeir eru ekki neitt. Þetta er bara áróður, bara lýðskrum. Hér er grafalvarlegt mál á ferð um raunverulega og sannanlega erfiðleikar fjölda fólks, sem eru enn til staðar, því miður, þótt ástandið hafi verulega lagast. Af hverjum reynum við ekki að nálgast málið betur á þeim forsendum? Eru bara komnir þeir breyttu tímar að tiltekin stjórnmálaöfl gætu sáldrað silfrinu úr ríkissjóði til að kaupa fyrir sálu sinni eftir kosningar eins og þeim sýnist og þurfa ekki að standa nein reikningsskil á því að það sé forsvaranleg aðgerð? Þetta er það ekki. Ég hef engan tíma til að fara yfir þessar aðgerðir í heild sinni með séreignarsparnaðarkostnaðinum sem lendir á ríki og sveitarfélögum og hendir gríðarlegum reikningum inn í framtíðina sem þýðir að skattgreiðendur komandi áratuga, börnin okkar, bera í raun og veru mesta herkostnaðinn af aðgerðinni. Við erum ekki að nota tekjur ríkisins í dag, þess vegna þessa 80 milljarða ef þeir skila sér og bankaskattinn heldur, til að borga niður skuldir — nei, við erum að útdeila því svona. Við erum að afsala ríki og sveitarfélögum miklum framtíðartekjum út úr séreignarsparnaðarkerfinu. Svo verður að sjálfsögðu að grípa til einhverra mótvægisaðgerða síðar meir.

Hér hefur verið farið vel yfir það, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, Árna Páli Árnasyni, hvernig forgangsröðunin er í þessari aðgerð. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þá sem eru orðnir eitthvað ryðgaðir í þessu eða hafa kannski aldrei áttað sig á málinu að lesa 8. gr. laganna, þ.e. nr. 35/2014, og 11. gr. Hvernig er farið í aðgerðir? Allra fyrsta krafan sem er greitt inn á er ekki höfuðstóll skuldarans, nei, það er ef einhvers staðar stendur eftir krafa á eignalausum einstaklingi sem er búinn að missa húsnæði sitt þannig að veðið er horfið en krafan stendur áfram eftir á einstaklingnum, hafi hún ekki verið felld niður, eins og segir í textanum. Það á ekki að reyna að ná hinum þar sem menn gáfust upp og krafan var felld niður, en ef það skyldi standa einhvers staðar eftir krafa á einhverjum sem bankinn hefur þrjóskast við að halda vakandi, þó að nauðungarsala hafi farið fram, þá skal borga hana upp. Þar næst koma til frádráttar, samanber 8. gr., allar fyrri aðgerðir. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst það með ólíkindum þegar sérstaka vaxtaniðurgreiðslan var tekin þar inn. Af hverju voru vaxtabæturnar þá ekki teknar í heild svo að allir sem fengu vaxtabætur skyldu missa þær? Nei, það var látið nægja að taka sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna og meira að segja sérstakar lánsveðsvaxtabætur sem voru sérstakur stuðningur sem menn gripu til til að aðstoða þann hóp sem sat fastur í bullandi yfirveðsettri eign vegna lánaðra veða sem ekki tókst að leysa í samningunum við lífeyrissjóði eða banka á árunum 2010 og 2011. Menn gripu til þess ráðs að hjálpa þeim hópi sérstaklega með viðbótarvaxtabótum en nú skal hann missa þær. Er lánsveðshópurinn þá að fá úrlausn hér sem slíkur og sérstaklega? Nei, hann er því miður skilinn eftir einu sinni enn. Frumvarp um að heimila ríkinu að efna samkomulagið við lífeyrissjóðina fékkst ekki afgreitt.

Sérstök skuldaaðlögun, 110%-leið, greiðsluaðlögun, ráðstafanir vegna þeirra sem áttu tvær fasteignir, sérstök vaxtaniðurgreiðsla, ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur — þetta er allt dregið frá fyrst. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Gert er upp við bankakerfið. Öll vanskil, gjaldfallnar afborganir, gjaldfallnir vextir, gjaldfallnar verðbætur og greiðslujöfnunarreikningurinn er dregið frá áður en króna fer inn á höfuðstólinn. Það er gert upp við bankakerfið. Það er engin smátraktering. Hvernig halda menn að hlutfall lána sem ekki eru í skilum fari með þessu? Hvernig munu menn meta þetta hjá ESA? Hvers konar örlætisgerningur er (Forseti hringir.) það við bankakerfið að hreinsa upp öll vandamál þar hjá tugþúsundum viðskiptavina vegna íbúðalána áður en þeim er hjálpað (Forseti hringir.) sem slíkum?