144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega spyrja sig þegar við fjöllum um þetta mál: Hvað er forsendubrestur? Er það þegar aflaheimildir eru teknar í burtu í stórum stíl, eins og gerðist til dæmis á Djúpavogi? Hvernig á að bæta fyrir slíkan forsendubrest? Frammi fyrir hverju standa þeir sem þar búa, er það ekki forsendubrestur? Það er forsendubrestur á tilverunni, fólk þarf að taka sig upp og flytja vegna þess að búið er að kippa undan því atvinnuveginum.

Það að skilgreina forsendubrest með þeim hætti sem hér er gert vekur umhugsun, þ.e. hvernig Framsóknarflokkurinn fær það til að ganga upp. Ég hef ekki fengið svör við þeim spurningum hvað Framsóknarflokknum finnst réttlætanlegt og réttlátt við framsetninguna sem birtist í þessu skuldaleiðréttingarmáli sem svo hefur verið kallað. Hér á að gera allt fyrir alla en svo tala þingmenn úr sama þingmannahópi til dæmis um að ekki sé hægt að hafa Ríkisútvarpið, það geti ekki gert allt fyrir alla. Það er hægt að ausa peningum úr ríkissjóði í aðgerð sem þessa, sem augljóst er að kemur ekki öllum til góða.

Það er líka mjög merkilegt að það frumvarp sem hér liggur fyrir er sett fram til að girða fyrir það ef eitthvað skyldi standa út af. Í kosningabaráttunni var því stíft haldið fram að ekkert hefði verið gert og því er verið að girða fyrir engar aðgerðir, sem þó eru nokkrar taldar upp í stóra frumvarpinu. Mér fyndist það gustukaverk af hálfu ríkisstjórnarinnar að setja stóra auglýsingu í alla helstu miðla þar sem taldir yrðu upp allir þeir liðir sem frádregnir verða áður en fólk fær greiðslu. Að sama skapi væri það gustukaverk að leyfa fólki að sjá hverjum er greitt fyrst, þ.e. hvað dregst frá og í hvaða röð, þannig að fólk átti sig á því hvað stendur út af. Ég er nefnilega hrædd um að afskaplega margir verði fyrir miklum vonbrigðum.

Ég get sagt, eins og þeir sem talað hafa á undan mér, síðustu tveir ræðumenn, að ég skil eiginlega ekki alveg hvers vegna Framsóknarflokknum er í mun að gera upp við fjármálastofnanir, af hverju það er atriði númer eitt að taka fyrir það sem búið var að semja um eins og hér hefur verið rakið, búið var að semja um að mætti bíða. Fjármálastofnanirnar voru búnar að gangast inn á að bíða, af hverju er það tekið fyrst í forgangsröðuninni? Og sérstaklega eru kannski þessir tveir stóru þættir sem varða greiðslujöfnunarreikningana og glötuðu veðkröfurnar. Mér finnst ekki hafa komið fram rökstuðningur, og fannst það ekki koma fram í ræðu hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar áðan, hvers vegna hann teldi þetta vera forgangsmál. Ég tek undir það að það má alveg draga í efa — og mér finnst ekki ólíklegt að það komi fram hjá ESA — að litið verði á það sem ríkisstyrk þegar fjármálastofnanir eru búnar að samþykkja þetta.

Auðvitað snýst þetta um fólkið, þetta snýst um þjóðina. Þetta snýst um að fólk sem telur sig hafa kosið lækkun á skuldum sínum — ég held að það fólk sem á í greiðsluvanda horfi mest til þessara aðgerða — bíður milli vonar og ótta. Kannski heldur það að þetta sé bara stjórnarandstöðuþus, en kannski er það farið að átta sig á því að þetta tekur lengri tíma, þetta er ekki jafn einfalt eins og mikið var talað um í kosningabaráttunni, að þessu yrði bara sveiflað með einni hendi og einhverjir vondir í útlöndum mundu borga. Það hefur allt saman gengið til baka. Ég segi eins og sagt hefur verið áður: Sem betur fer kannski verður framkvæmdin ekki eins stór í sniðum og upphaflegar áætlanir Framsóknarflokksins gengu út á.

Það er ábyrgðarhluti að fara fram með slík loforð eins og þar var gert og enn meiri ábyrgðarhluti að segja það beinlínis við fólk að greiðslubyrðin komi til með að lækka þannig að fólk finni verulega fyrir því. Miðað við þessar aðgerðir er augljóst að ansi margir áttu von á því að þetta færi beint inn á höfuðstólinn, greiðslujöfnunarreikningurinn mundi áfram verða í frosti og greiðslubyrðin yrði léttari sem einhverju næmi þegar þessi leiðrétting gengur í gegn. En mér sýnist að svo verði ekki.

Það er líka áhugavert þegar við tölum um forsendubrest. Ég var á fundi hjá Þjóðskrá Íslands í morgun, þar sem meðal annars kom fram að fasteignamat á fjölbýli hefur hækkað um tæp 11% á milli ára, rúmlega 7% minnir mig á sérbýli. Þetta á vissulega ekki við alls staðar. Og eins og hér hefur líka verið rætt hefur væntanlega myndast þarna aukinn eignarhluti, er það þá sami forsendubresturinn og Framsóknarflokkurinn lagði af stað með?

Það var aðeins rakið hér hvernig frumvarpið er orðað, þetta orð „almennt“. Vissulega var reynt að útskýra það fyrir nefndinni hvað átt væri við með því. Þegar við horfum á afleiðingarnar af þessu — til dæmis hefur verið upplýst um að einn banki fór allt aðrar leiðir og veitti viðskiptavinum sínum afslátt svona óforvarendis og allt það, sumum, ekki öllum. Það fólk sem fór ekkert í gegnum formlegar leiðir, hefur hugsanlega átt góða viðskiptasögu, fær kannski hærri greiðslu. Örugglega má draga þá ályktun að þetta fólk sem hafði þann aðgang gæti haft úr meiru að spila en margur annar.

Það var svolítið rætt, man ég, þegar málið var lagt fram á síðasta þingi, að það væri svo mikið jafnræði í þessu, það ætti að gera jafnt fyrir alla. Við höfum mikið rætt um að það getur eiginlega ekki verið, í ljósi þess sem ég sagði hér áðan, þegar fólk hefur haft mismunandi aðgang að fjármálastofnunum. Þeir sem hafa meira á milli handanna hafa væntanlega betri aðstæður en hinir sem eru í greiðsluvanda eða hafa minna á milli handanna. Eins og ég sagði áðan hafa vaxta- og barnabætur verið notaðar sem jöfnunartæki fyrir þá sem hafa haft lægri tekjur og lægri framfærslu og annað því um líkt, það er allt saman skorið niður. Auðvitað kemur til að skuldir heimila hafa lækkað, það skal ekkert dregið úr því. En það er líka þannig að sá hópur sem þurfti mest á því að halda fékk þetta, barnmargar fjölskyldur, ungar fjölskyldur, nýbúnar að fjárfesta o.s.frv.

Þetta með að sérstöku vaxtabæturnar skuli dregnar frá — mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig menn fá út að sumt sé dregið frá og annað ekki, og skilja svo suma hópa eftir. Hver eru rökin fyrir því? Af hverju á bara að koma til móts við fólk sem á eign? Er það framtíðarstefna þessara ríkisstjórnarflokka að það sé hin eina sanna búseta að eiga eitthvað þegar sífellt er verið að miða okkur við Norðurlöndin eða önnur lönd sem hafa farið meira í þá áttina að fólk sé á leigumarkaði? Þetta fólk er skilið eftir og það getur ekki talist jafnræði eða mér finnst það að minnsta kosti ekki.

Það stærsta sem í þessu er, eins og hér hefur verið rakið, er forgangurinn, hvernig þetta verður greitt upp. Ég held að ekki hafi öllu verið svarað sem spurt var um hér í ræðum og riti varðandi þessi mál. Það er líka áhyggjuefni að ekki er búið að ná neinu samkomulagi við fjármálastofnanir um þetta, það er ekki kominn neinn rammi. Það er líka ábyrgðarhluti að fólki skuli verða tilkynnt um það, jafnvel áður en ramminn verður til, áður en búið er að ná samningum við fjármálastofnanirnar sjálfar, að það fái um það bil þetta mikið. Svo á ESA eftir að samþykkja það og fram kom á nefndarfundi að það yrði gert þannig. Það er því verið að gefa fyrir fram ákveðnar væntingar sem svo kannski standast ekki því að það þarf jú allt að rammast innan þessara 72 til 73 milljarða sem út af standa á fjórum árum. Mér finnst ábyrgðarhluti að gera slíkt.

Hv. varaformaður fjárlaganefndar fór mikinn undir liðnum Störfum þingsins. Hann talaði um að við þyrftum að lesa fjárlögin og gera okkur grein fyrir stöðu ríkissjóðs, að við værum að flytja byrðar yfir á börnin okkar til framtíðar og ýmislegt sem fram kom í máli hv. þingmanns. Við erum að gera það með því að fara í þessar aðgerðir, það er bara þannig. Í staðinn ættum við að nýta þann bankaskatt sem innheimtist, sérstaklega þennan af föllnu búunum, til þeirra sem klárlega eru í greiðsluvanda. Af því að Hagstofufrumvarpinu var þröngvað í gegn með látum á síðasta þingi hljóta að vera komnar einhverjar upplýsingar í þann gagnabanka þannig að hægt sé að greina stöðu þess fólks sem er í raunverulegum greiðsluvanda, nýta hluta fjárins til að leysa vanda þess fólks og lækka svo skuldir ríkissjóðs, lækka hina títtnefndu vaxtabyrði sem Sjálfstæðisflokkurinn er alveg að fara á límingunum yfir og talar mikið um, sérstaklega hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég dreg ekkert úr því, þetta er gríðarlega mikil vaxtabyrði, en sem betur fer hefur með góðri hagstjórn undanfarin fimm ár tekist hægt og sígandi að vinna á hinum mikla vaxtavanda.

Með því að lækka framtíðartekjur sveitarfélaganna með þeim hætti sem gert er í hluta þessa máls erum við auðvitað líka að varpa ákveðnum skuldbindingum yfir á framtíðina, yfir á börnin okkar. Ég held því að sumir þingmenn ættu að líta sér nær þegar þeir tala um að sýna mikla ábyrgð og eru með umvandanir í þá veru að þeir sem hér tala úr pontu — og er þá væntanlega átt við stjórnarandstöðuna — þurfi að gæta sín á því að vera ekki eins og þeir viti ekki um hvað málið snýst er varðar fjárlög ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég ákvað að leggja fram breytingartillögu við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég mundi vilja hafa þetta allt öðruvísi og ég mundi vilja taka fleiri hluti fyrir. Ég nefni sem dæmi kröfur sem hafa glatað veðrétti sem á að greiða inn á fyrst. En ég legg samt sem áður til að það verði greiðslujöfnunarreikingurinn sem fái að vera í friði, þessi greiðslujöfnunarreikningur sem fjármálafyrirtækin voru búin að samþykkja að færa aftur fyrir lánið, aftur fyrir lánstímann; ef til kæmi að afskrifa eitthvað verði það tekið út úr þessu frumvarpi, að greiðslujöfnunarreikningurinn fái að vera í friði. Þetta er allt of mikið á forsendum fjármálafyrirtækjanna. Þessi fyrsta umferð gengur eiginlega út á það að allt sem greitt er fari til þeirra í stað þess að gagnast fólki í greiðsluvanda. Afborganirnar sem eru gjaldfallnar, dráttarvextirnir, vextirnir, vanskilin, allt er þetta greitt fyrst, áður en kemur að hinni eiginlegu lækkun höfuðstólsins. Vissulega er jöfnunarreikningurinn lækkun á höfuðstól en það breytir því ekki að ef þú átt eitthvað inni á greiðslujöfnunarreikningi þá er greiðslubyrðin minni þess vegna, þannig að hún verður kannski sú sama eftir þessa leiðréttingu. Fólk er þá hugsanlega í sömu sporum og gæti jafnvel verið verr sett.

Virðulegi forseti. Ég legg til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki það til athugunar og ég hvet framsóknarmenn sérstaklega til þess. Ég trúi því ekki að réttlæting þeirra sé í þessu fólgin, af því að þetta er jú fyrst og fremst þeirra skuldalækkunarloforð, þessi hluti. Ég hvet þá til að taka þetta til skoðunar þannig að heimilin finni virkilega fyrir því að lánin hafi verið lækkuð, svo að greiðslubyrðin verði léttari, því að ekki virðist að öðru leyti vera hægt að hagga svo neinu nemi þeirri algildu aðgerð sem hér er lögð til. Því er kannski verið að reyna að hreyfa við málinu með því að koma því á framfæri að þessi eini liður verði tekinn út úr menginu.