144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Jú, eins og ég fór yfir áðan þá átta ég mig á því hvert markmið frumvarpsins er, þ.e. að skýra lagatexta í lögum nr. 35/2014, þ.e. um millifærsluna. Ég er bara ekki sammála því að þessi texti sé skýr eins og ég fór yfir áðan. Ég er ekki sammála því að það sé skýrt þar sem segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Rétt þykir að bregðast við þessu sérstaklega þar sem mjög óeðlilegt þykir að réttarstaða heimila sem eins er ástatt fyrir sé með gerólíkum hætti allt eftir því til dæmis hvort almenn skuldalækkunarúrræði einstakra lánastofnana í þágu skuldsettra heimila áttu sér stað …“

Hvað eru almenn úrræði? Er það eitthvað sem var auglýst? Er það eitthvað sem ein bankastofnun greip til vegna tíu viðskiptavina sinna eða 100 eða bara fimm? Hvað eru almennar aðgerðir? Ég hef fengið fyrirspurnir um þetta, m.a. frá fólki sem fór í einfaldar aðgerðir, t.d. að fá niðurfellda vexti, dráttarvexti af skuldum sínum og setja skuldirnar á skuldabréf inn í framtíðina og hefur síðan staðið í skilum. Er það almenn aðgerð af því bankinn gerði þetta fyrir um það bil 100–150 manns? Þetta var ekki auglýst. Svona leystu bankamenn og bankar úr ýmsum vandkvæðum. Er það almenn aðgerð? Á að fara að hundelta það fólk uppi líka til að koma í veg fyrir að það fái nokkuð út úr þessu?

Ég er ósammála því að textinn sé skýr eins og ég fór yfir, hvorki í lagafrumvarpinu né heldur nefndaráliti meiri hlutans. Ég hef grun um að hv. þingmaður geti verið mér sammála um það að þetta sé frekar óskýr texti og það eigi ekki að vera túlkunaratriði einhvers starfshóps eða leiðréttingarhóps eða ráðuneytis að túlka svona mál, heldur eigi þetta að vera skýrt.