144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal með mestu ánægju útskýra það. Það er ekki nýtilkomið. Ég eyddi miklum tíma í það á síðasta kjörtímabili að skoða húsnæðismálin. Auðvitað tók maður inn á sig þá erfiðleika sem þar voru. Við gerðum svo það sem við töldum okkur geta í formi þess að stórhækka vaxtabætur og reyna að ná samningum við fjármálakerfið um hluti eins og 110%-leiðina, það var greiðslujöfnunin, greiðsluaðlögunin, sértæk skuldaaðlögun, stofnun embættis umboðsmanns skuldara, þannig gæti ég áfram talið. Það var endalaus og viðvarandi vinna í gangi undir stanslausum og mjög hörðum ásökunum um að við værum ekki að gera neitt. Við reyndum á hverjum tíma að ganga eins langt og menn töldu ábyrgt og hægt, en ég var mjög snemma þeirrar skoðunar í þessum málum að eitt væri mjög óskynsamlegt og það væri að ráðstafa miklum opinberum peningum í algerlega flatar aðgerðir. Við hefðum einfaldlega ekki ráð á því og það væri ekki félagslega verjandi. Við yrðum að beina takmörkuðum fjármunum okkar, allt í einu skuldug þjóð upp í rjáfur með ríkissjóð sem við vissum ekki hvort mundi jafnvel enda á hausnum, við yrðum að beina takmörkuðum peningum með markvissum hætti til þeirra sem væru mest í þörf fyrir að fá þá. Ég er enn þeirrar skoðunar.

Þess vegna hvarflaði ekki að mér að standa að þessari aðgerð þótt allur heimsins þrýstingur og popúlismi hefði verið þar í gangi, af því að ég tel hana óskynsamlega og ekki verjandi og ekki réttlætanlega ráðstöfun á opinberu fé. Það mun hellingur af fólki fá hér mikla opinbera fjármuni sem það á ekkert tilkall til á meðan aðrir og önnur verkefni hins opinbera eru í miklu ríkari þörf fyrir þá. Ég hefði þar af leiðandi talið að við ættum áfram að leita leiða til að styðja með sértækum hætti þá sem eru í mestri þörf fyrir það, fanga frekar þá hópa sem sannarlega urðu fyrir raunverulegum sérstökum áföllum, eins og þeir sem keyptu á óhagstæðasta tíma og þá sérstaklega sína fyrstu íbúð. Ég er með svo langt í almennar aðgerðir, en ekki í þetta, (Forseti hringir.) að sáldra silfrinu út úr ríkissjóði þannig á kostnað barnanna okkar að verulegur hluti þess lendi hjá moldríku fólki.