144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Svo virðist vera sem ákvörðun hafi verið tekin af lögreglunni um að vopnavæðast í stórum stíl og eignast á annað hundrað hríðskotabyssur og koma þeim fyrir í bifreiðum almennra lögreglumanna. Um þetta lásum við þingmenn í DV. Þingmenn og almenningur í landinu hafa enga kynningu fengið á þessari ákvörðun fyrr en hún hefur verið tekin. Svo fréttum við af henni í fjölmiðlum og ég velti fyrir mér hvort vopnavæðing lögreglunnar væri enn þá í leyni ef ekki hefði komið til fréttar DV í gær.

Í kjölfarið fáum við svo misvísandi fréttir af því hvort vopnin hafi verið keypt eða fengin að gjöf frá Norðmönnum. Fyrstu upplýsingar um það fáum við í gegnum persónulega fésbókarsíðu aðstoðarmanns hæstv. dómsmála- og forsætisráðherra þar sem hann upplýsir um uppruna vopnanna, þau hafi verið gjöf frá Norðmönnum þó að aðrir hafi talað um að vopnin hafi verið keypt.

Við fáum fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu þar sem segir að ekkert af því fé sem varið hafi verið til að efla lögregluna hafi verið veitt til vopnakaupa og að engin ákvörðun um stefnubreytingu hafi verið tekin af ráðherra. Hæstv. innanríkisráðherra hefur enda sagt að þó að ljóst sé að lögreglan þurfi að móta þá stefnu sem hún vilji taka um vopnaburð þurfi sú stefna síðan að koma til lýðræðislegrar umræðu á Alþingi.

Hæstv. dómsmála- og forsætisráðherra notar svo tækifærið til að grínast svolítið á sinni eigin fésbókarsíðu, sem væri bara í fínu lagi ef hann hefði líka svarað almenningi og Alþingi um þetta stóra og mikilvæga mál.

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög margt athugavert við þá stjórnarhætti sem hæstv. ríkisstjórn sýnir í þessu máli. Að sjálfsögðu á að fara fram umræða á lýðræðislegum vettvangi þegar svona ákvörðun um stefnubreytingu er tekin innan lögreglunnar. Að sjálfsögðu eiga ráðherrar að veita slíkar upplýsingar og efna til umræðu þó að ekki þurfi sérstakar lagaheimildir til vopnavæðingar og að sjálfsögðu eigum við ekki að þurfa að lesa um það í blöðunum að slíkar ákvarðanir hafi verið teknar og þurfa svo að fylgjast með fésbókarsíðum hinna og þessara (Forseti hringir.) til að átta okkur á því hvað hafi raunverulega gerst.

Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Svona ákvarðanir eiga heima hér til umræðu (Forseti hringir.) en ekki með þessum hætti.