144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Herra forseti. Í morgun ræddum við í hv. fjárlaganefnd mál sem er mjög mikilvægt að við ræðum hér. Þá fengum við Ríkisendurskoðun, sem er eftirlitsstofnun Alþingis, til að fara yfir mál sem snerta skattgreiðendur beint og það eru fjárhagsvandræði tveggja ríkisstofnana, Ríkisútvarpsins og Íbúðalánasjóðs. Ég held að það sé lykilatriði að við förum vel yfir það hvernig eftirliti með starfsemi hinna einstöku ríkisstofnana er háttað og hvað við eigum að gera þegar mál koma upp eins og þar eru á ferðinni. Í þessari stuttu ræðu get ég ekki farið nákvæmlega yfir það en mun gera það þegar fram líða stundir.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og hvetja hv. þingmenn til að ræða öryggismál af yfirvegun og skynsemi; og í þessu tilfelli er verið að ræða um lögregluna. Mér hefur fundist umræðan undanfarna tvo daga langt frá því að vera á þeim nótum. Ég hvet menn til að hlusta á það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór yfir hér áðan. Hann benti á það að þær upplýsingar sem um ræðir — menn koma hingað upp og tala um leyndarhyggju og annað slíkt — hafa verið á vef lögreglunnar frá árinu 2012.

Eins og komið hefur fram hefur íslenska lögreglan — og það er ekki komið til af góðu — verið vopnuð síðan í Gúttó-slagnum. Gúttó-slagurinn var ekki í gær. Þetta eru alvarleg mál. Þetta snertir öryggi borgaranna, þetta snertir öryggi lögreglumanna.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að við ræðum þetta á þessum vettvangi en við hljótum að gera þá kröfu til okkar að við ræðum þessi mál af yfirvegun.