144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað enn og aftur til að tala um hina ágætu stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. vissan hluta hennar, hluta sem er mér mjög hugleikinn. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Ég er farinn að hljóma eins og biluð plata.

„Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.

Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum.“

Það vantar ekki að þetta eru uppörvandi orð og fögur fyrirheit en ég velti því fyrir mér æ oftar hvort stjórnarherrarnir hafi meint eitthvað með þessu þegar þeir skrifuðu þetta niður. Þetta segi ég í ljósi þess að allt síðasta ár hefur hver höndin verið upp á móti annarri á Íslandi, verkföll og verkfallshótanir — síðast í morgun byrjaði eitt verkfallið — frá hinum ýmsu starfsstéttum.

Heilbrigðiskerfið, samgöngumál, menntamál og velferðarkerfið er í uppnámi. Sveitarstjórnarfólk — í kjölfar kjördæmaviku segi ég þetta — um allt land er í miklu uppnámi yfir samráðsleysi stjórnvalda við hvers kyns ákvörðunartöku. Nú síðast í gær fengum við þingmenn Suðurkjördæmis að heyra það á ársþingi Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi að við værum svo miklar liðleskjur að hugsanlega þyrftu sveitarstjórnarmenn svæðisins að leita á náðir annarra þingmanna í öðrum kjördæmum til að fá hjálp, yfirvöld hefðu uppi stór orð um hvers kyns áætlanir og aðgerðir en ekkert gerðist. Það væri ekki staðið við nokkurn skapaðan hlut sem sagður hefði verið.

Virðulegi forseti. Ég er samt jákvæður. Ég hvet hæstv. forustumenn ríkisstjórnarinnar til þess að einhenda sér í að standa við þau markmið stefnuyfirlýsingarinnar sem áður eru nefnd. Eins hvet ég okkur þingmenn alla til að standa betur saman við að efla traust og virðingu samfélagsins á störfum okkar. Það gerum við með því að forgangsraða upp á nýtt og ekki síst að nýta alla þá möguleika sem okkur standa til boða til að auka hagsæld þjóðarinnar. Við erum ekki að gera það. Þjóðin þarf svo sannarlega á því að halda.