144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla ekki að svo stöddu að taka efnislega afstöðu til þessarar tillögu að öðru leyti en því að ég lýsi mjög miklum efasemdum um að þeim góða tilgangi sem hv. þingmaður stefnir að verði náð með þeirri tillögu sem hér er rætt um.

Ég hef líka mjög miklar efasemdir um hvernig málið er sett fram í greinargerð. Til dæmis er gefið í skyn að hægt sé með einhverjum hætti að ná rekstrarlegu hagræði og vitnað til ársins 2012 þegar framlög og rekstrarkostnaður Landspítalans var í sögulegu lágmarki. Að ætla að reikna 2,6 milljarða kr. sparnað til að standa undir hluta af vaxtakostnaði, að gefa til kynna að hægt sé að ná einhverjum slíkum sparnaði til að standa undir þessu, gefur ranga mynd af dæminu. Við vitum það öll sem erum í þessum þingsal að ef eitthvað er þá vantar meiri fjármuni í rekstur Landspítalans. Það er rangt og það er hreinlega blekkjandi að taka upp árið 2012 og reikna sig niður á einhvern raunverulegan sparnað. Ef menn ætla að nálgast viðfangsefnið út frá þessu þá er málið dauðadæmt.

Að öðru leyti heyri ég hvað þingmaðurinn hefur í huga varðandi fjármögnun á byggingunni. Þar erum við ósammála. Ég tel að það komi ekki til greina að skuldsetja ríkissjóð frekar en orðið er. Það eru akkúrat skuldir og gríðarlega háar vaxtagreiðslur sem koma í veg fyrir að við getum annars vegar fjárfest í innviðum og hins vegar í aukinni heilbrigðisþjónustu úti um allt land þar á meðal Landspítalanum.