144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu og styð hana því að sjálfsögðu og tel mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga haldi áfram að vinna þessu mikla þjóðþrifamáli fylgi og koma því á rekspöl.

Í andsvörum áðan komu fram athugasemdir við samsetningu þeirrar nefndar þingmanna sem kjósa skal samkvæmt tillögunni. Auðvitað er rétt að fjalla um það í nefnd hvernig best sé að setja saman nefndina. Hér voru færð fram alveg gild sjónarmið um að eðlilegt væri að þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum væru í meiri hluta nefndarinnar.

Hinu má ekki gleyma að það sem eftir stendur í málinu er einfaldlega pólitískt úrlausnarefni. Málið hefur verið rannsakað í þaula og sumir mundu segja í drep og ekkert eftir órannsakað eða kannað í hagkvæmniforsendum eða rökstuðningi fyrir þessari framkvæmd. Þvert á móti blasir við sú staðreynd að gríðarlegt hagræði verður af því fyrir Landspítalann að komast á einn stað. Það er líka ljóst að spítalinn mun ekki að óbreyttu geta veitt þá þjónustu sem við væntum af þjóðarspítalanum og að aðstöðuleysi á spítalanum stendur honum fyrir þrifum og gæðum þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við teljum grunnþátt í uppbyggingu velferðarsamfélags.

Við eigum öll mikið undir því að hér sé gott heilbrigðiskerfi. Fyrirtæki sem hafa verið að lokka til sín erlenda starfsmenn segja gjarnan frá því að það sem starfsmennirnir spyrja um sé aðbúnaður í heilbrigðisþjónustu og hvaða kjör séu búin börnum þeirra. Öfugt við það sem flestir halda að spurt sé um skatthlutfall eða aðra slíka þætti. Það er aðbúnaðurinn og umgjörðin sem fólki er búin sem skiptir mestu máli.

Heilbrigðisþjónustan og gæði hennar verður ákvörðunarþáttur fyrir fleiri og fleiri Íslendinga sem eru í námi erlendis á næstu árum um það hvort áfram skuli búið þar eða hvort flutt skuli aftur heim til Íslands að námi loknu. Við stöndum ekkert allt of vel í þeim samanburði nú og staða okkar í þeim samanburði fer versnandi dag frá degi þar sem heilbrigðisþjónustan er annars vegar.

Virðulegi forseti. Þetta verkefni er pólitískt úrlausnarefni. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um þá aðför að almannaþjónustu sem mér finnst gæta í orðræðu þingmanna og ráðherra stjórnarmeirihlutans síðustu mánuði um þetta mál og önnur mál sem lúta að uppbyggingu almannaþjónustu í landinu. Það er sama hvar drepið er niður fæti, hvort það er í umræðu um þetta mál, umræðu um Ríkisútvarpið eða einhverja aðra almannaþjónustu, klifað er á því að rekstrarvandi stofnana, sem er afleiðing af ónógum fjárveitingum frá Alþingi til að sinna lögbundnum verkefnum, sé sök þeirra sem stofnununum stjórna. Þar með eru gefin út þau skilaboð frá ríkisstjórninni að einstaklingar verði hengdir en ekki verði útvegað fjármagn til að sinna lögbundnum skyldum.

Við sjáum líka að búin hefur verið til algjörlega ný orðræða um hugmyndina um skuldsetningu til að fjármagna arðbær verkefni. Það er vissulega rétt sem heyrist af ráðherrabekknum að ekki er rökrétt að fjármagna rekstur ríkissjóðs, almennan rekstur ríkissjóðs með lántöku. Þess vegna fórum við í tíð síðustu ríkisstjórnar í erfiðar aðhaldsaðgerðir til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, en við höfum aldrei hafnað því af hugmyndafræðilegum ástæðum eins og núverandi ríkisstjórn gerir að það geti verið efnisrök til að taka lán fyrir þjóðhagslega mikilvægum verkefnum eða þjóðþrifaverkefnum. Þvert á móti hófum við uppbyggingarátak á sviði hjúkrunarheimila á síðasta kjörtímabili í samvinnu við mörg sveitarfélög þar sem sjálfstæðismenn fara með stjórn. Það leiddi til þess að hægt var að fjölga rýmum, hægt var að nýta einstakar aðstæður í efnahagslífinu, lágan byggingarkostnað og mikið atvinnuleysi, til þess að byggja með lágum tilkostnaði fyrir ríkið húsnæði sem við vitum að verður þörf fyrir næstu áratugi. Og það verður borgað niður á næstu 40 árum af ríkinu, enda mun húsnæðið verða til lengur en í 40 ár. Það er ekkert að því að taka lán til 40 ára fyrir því.

Þessa hugsun held ég að hafi nú fyrst sett fram í hugmynd um opinber fjármál á Íslandi, Finnbogi Rútur Valdimarsson sem var bæjarstjóri í Kópavogi þegar það bæjarfélag stóð frammi fyrir gríðarlegum velferðarverkefnum. Barnabærinn mikli átti hvorki skóla né götur né nokkra aðra innviði. Það var einfaldlega stefnumörkun jafnaðarmanna í Kópavogi þá að eðlilegt væri að stofnkostnaður á sviði velferðarþjónustu væri borinn af fleiri en einni kynslóð og það væri ekkert að því að taka lán til uppbyggingar á skólum, gatnakerfi og holræsum og öllu því öðru sem skipti grundvallarmáli og borga það niður á lengri tíma en af einni kynslóð.

Ég hef stórar áhyggjur af þeirri hugmyndafræðilegu meinloku sem hæstvirtir ráðherrar básúna daginn út og daginn inn og stjórnarmeirihlutinn að það sé óhugsandi í öllum tilvikum að taka lán, sama hvað í hlut á. Og lengst ganga menn í hugmyndafræðilegri nauðhyggju og í að klæða sjálfa sig í ónauðsynlegar spennitreyjur þegar þeir segja eins og hæstv. fjármálaráðherra sem segir að hann sé á móti því að taka lán til uppbyggingar hjúkrunarheimila en fer á sama tíma ránshendi um Framkvæmdasjóð aldraðra sem ætti þá að standa til að byggja upp fyrir eigið fé hjúkrunarheimili, þannig að hann bæði étur útsæðið og segist vilja bara éta það sem kemur upp úr jörðinni. Það gengur ekki. Ef menn eru búnir að éta útsæðið er ekki hægt að marka þá stefnu að þeir ætli að bíða eftir uppskerunni.

Það er þessi sjálfskipaða hugmyndafræðilega spennitreyja sem ríkisstjórnin er í sem sýnir betur en nokkuð annað hvílík heljartök hugmyndafræðileg nauðhyggja hefur náð á ríkisstjórninni. Óbeit á opinberri þjónustu, hatur í garð opinberra embættismanna, fyrirlitning í garð þeirra sem sinna samfélagsverkefnum innan opinberra stofnana. Þetta er alvarlegt vandamál fyrir þjóðina.

Það er stórskrýtið að þurfa að flytja ræður eftir ræður eftir ræður til að útskýra fyrir stjórnarmeirihlutanum að ekki sé hægt að ætla þjóðarspítalanum að búa í hripleku húsnæði og ekki sé hægt að lækna lífshættulega sjúkdóma í sveppagildrum og ekki sé hægt að búast við því að unninn verði bugur á bráðum lækna- og hjúkrunarliðsskorti á sama tíma og starfsaðstaðan er ljósárum á eftir því sem gerist í öðrum löndum. Þetta skilja allir sem vilja skilja. En það eru hugmyndafræðilegar ástæður, óbeit ríkisstjórnarinnar á opinberri þjónustu og yfirveguð stefna hennar um að veikja opinbera þjónustu, grafa undan henni og skaða hana sem veldur því að við komumst ekkert áfram.

Þess vegna er mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga um uppbyggingu Landspítalans sé komin fram. Þess vegna ríður á að þingmenn stjórnarmeirihlutans gangi fram fyrir skjöldu og hafi vit fyrir ráðherrum sínum í þessum málum.