144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stenst ekki mátið, þegar maður fær tækifæri til að eiga orðastað við hv. þm. Össur Skarphéðinsson þá geri ég það nú oftar en ekki.

Ég ætla ekki að ítreka þær efasemdir sem ég setti fram hér um skipan nefndar sem er allt í góðum huga gert, en ég efast um að árangurinn verði sá sem að er stefnt.

Það er eitt sem ég vil spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson um. Fyrir utan að ætla að nota sömu krónurnar tvisvar, eins og hann virðist ætla að gera, þ.e. að sparnaður verði í rekstri Landspítalans sem hægt væri að nota til að standa undir til dæmis vaxtakostnaði eða fjármagnskostnaði þegar við vitum að fé vantar inn í reksturinn, þá er auðvitað mjög sérkennilegt að tala síðan um sparnað til að nota. Ég segi: Sparnaðurinn sem næst með byggingu Landspítala, nýs Landspítala, á auðvitað að fara í að styrkja innviði Landspítalans, í rekstur. Það er ekki rétt að stilla þessu upp með þessum hætti.

Spurning mín er fyrst og fremst sú — vegna þess að hv. þingmaður virðist vera opinn fyrir því til dæmis að selja ríkiseignir — hvort hann geti tekið undir það að hægt sé að skoða að færa eignarhlut ríkisins, 20–30% í Landsvirkjun, yfir í nýtt sjúkrahús og að á móti mundu lífeyrissjóðirnir eignast þann hlut í Landsvirkjun og við notum fjármunina, 30% af Landsvirkjun, til að færa yfir í nýtt háskólasjúkrahús, þjóðarsjúkrahús, sem við yrðum öll vel sæmd af.