144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér í dag að ef búið væri að hafna þeim leiðum sem hann lagði til að farnar yrðu um fjármögnun nýs Landspítala mundi hann skoða alla hluti. Ég er á þeim línum. Ég er til í að skoða alla hluti. Ég skal viðurkenna þó fyrir hv. þm. Óla Birni Kárasyni að mér er ekkert um það gefið á þessu stigi að ræða um sölu á hluta af Landsvirkjun. Ég tel að það séu betri kostir í stöðunni. Ég veit að hv. þingmaður velur alltaf besta kostinn þó að það sé stundum erfitt að sýna honum fram á hver sá kostur er.

Það vill svo til að við eigum Landsbankann og það vill svo til að einmitt vegna góðra samninga fyrrverandi fjármálaráðherra þá voru okkur færð hér á síðasta ári 18% til viðbótar af honum sem voru eignfærð á ákaflega lágu verði. Ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það áður að við eigum að íhuga sölu á hluta eignar okkar í Landsbankanum til þess að hefja þessa framkvæmd. Ég vænti þess að hv. þingmaður geti orðið mér sammála um það.

Hingað til hefur það meðal annars greint mínar skoðanir frá hans að hann hefur verið einn af óðustu einkavæðingarsinnunum. Ég hef ekki verið á þeim buxum. Ég er hins vegar til í að taka þetta ferðalag með honum. Ef hv. þingmaður er reiðubúinn til þess að koma með mér í það að selja hluta af Landsbankanum til þess að fjármagna meðferðarkjarnann og rannsóknarkjarnann í Landspítalanum þá skal ég dansa við hann í kvöld.