144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Herra forseti. Rétt til að ljúka umræðunni vil ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls og eins hæstv. forseta fyrir að hleypa okkur svona langt fram á kvöld. Ég þakka innilega fyrir að við gátum tekið þetta mál á dagskrá í kvöld og þakka fyrir stuðninginn. Það skipti mig máli að fólk úr öllum flokkum væri með á þessari tillögu. Ég held reyndar að erfitt sé að finna einhvern sem er mikið á móti þessu.

Ef við viljum hafa það þannig að fólk búi út um allt land í þessu stóra landi okkar þá verðum við að gera því kleift að njóta aðgangs að heilbrigðisþjónustu, það er einfaldlega frumskilyrði til þess að geta lifað og starfað. Þá þurfum við að vera svolítið kreatíf í því hvernig við ætlum að veita þá þjónustu. Tæknin er til staðar og hefur gefið góða raun í öðrum löndum. Þetta er því allt hið besta mál.

Það er alveg ljóst, sama hvað verður, að við þurfum að bæta fjarskiptin. Ég held að mál eins og þetta og ýmis önnur mál, ekki endilega af sama meiði heldur mál sem ganga út frá því að fjarskipti séu í lagi, styðji það að við færum okkur í þá átt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ég þakka fyrir umræðuna.