144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég væri stórum tortryggnari manneskja en hv. þm. Össur Skarphéðinsson en þrátt fyrir það hef ég svo mikla trú á mannlegu eðli að ég held að það skipti ekki máli þó að núverandi starfsmönnum Mannvirkjastofnunar verði skipt út fyrir einhverja aðra. Ég held að það sé margt að athuga í þessu máli vegna þess að nú fullyrðir hv. þingmaður að önnur þau lög sem sett eru undir svipaðar dagsektir séu jafn vitlaus. Ég ætla ekki að taka svo stórt upp í mig án þess a.m.k. að gaumgæfa efni þeirra aftur, en þetta var sett upp á þennan hátt í því skyni að sambærileg mál lytu sambærilegum dagsektum. Þannig var málið hugsað.

Vegna þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hafði ákveðnar efasemdir um þetta atriði fékk ég í hendur erindi frá atvinnuvegaráðuneytinu þar sem það var skýrt. Persónulega tel ég að þetta sé út af fyrir sig ekki jafn dramatískt og hv. þingmaður vill halda fram. Ég ítreka það að ramminn í dagsektunum er frá 0 kr. upp í 500 þús. kr. og það er yfirleitt þannig á Íslandi þegar við ákvörðum, hvort sem það eru sektir eða refsingar, að hámark þess ramma er sárasjaldan notað. Ég held því að hv. þingmaður geti alveg verið rólegur yfir þessu máli.