144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ég kemst ekki hjá því að nefna það, úr því að málið var lagt upp með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hvað varðaði hina sögulegu þróun frá 2007, hvernig staðið hefði verið að málum og margt sem ég heyrði að hv. þingmanni fannst ekki rétt og hefði átt að gera öðruvísi, að flokkur hv. þingmanns hefur nær sleitulaust setið í ríkisstjórn frá því ári nema auðvitað frá kosningunum síðast. Nægur tími hefði því getað unnist fyrir hv. þingmann, m.a. þegar hann sat í ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra, að koma þá fram með hugmyndir um þetta.

Nóg um það. Það hefur komið fram að stjórn Ríkisútvarpsins lét gera sjálfstæða úttekt á fjármálum stofnunarinnar á þeim tímapunkti sem var skipt um yfirstjórn í félaginu síðasta vor og niðurstaða úttektar endurskoðunarfélagsins PricewaterhouseCoopers er að félagið sé yfirskuldsett og skapi ekki nægt sjóðstreymi til að standa undir afborgunum af lánum á næstu missirum. Af þessu má vera ljóst að hér er um að ræða uppsafnaðan vanda til nokkurra ára.

Það er því alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir í ræðu sinni, hér er um vanda að ræða og augljóst að við erum komin að þeim punkti að hér þarf þá að taka ákvarðanir um framtíð Ríkisútvarpsins, með hvaða hætti við viljum sjá þá stofnun þróast.

Ég vil nefna það, af því að hér var talað um skuldastöðu félagsins, að ég tel að núverandi stjórn taki nú af ábyrgð á þeim vanda sem fylgir þessari yfirskuldsetningu og ég vonast til þess að áform hennar um sölu eigna til að greiða niður skuldir gangi eftir. Ég get líka tekið undir það að það er auðvitað umhugsunarefni og kann að vera hluti af lausn í þessu máli að horfa til lífeyrisskuldbindinganna og fyrirkomulagsins í þeim, hvort við viljum láta þetta standa svona óbreytt eins og það hefur staðið allt frá því að þetta ohf. var búið til.

Ég hef haft mínar efasemdir almennt um fyrirkomulagið ohf. Það snýr ekkert bara að Ríkisútvarpinu, heldur almennt því fyrirkomulagi, en hluti af þeirri umræðu átti sér stað í þingsölum fyrir ári eða svo þegar við tókumst á um það hver ætti að skipa stjórn þessarar stofnunar. Ég var þeirrar skoðunar að það hlyti að vera Alþingi af því að um þannig starfsemi væri að ræða að Alþingi sjálft ætti að skipa stjórnina enda bæru alþingismenn ábyrgð og þyrftu að standa frammi fyrir kjósendum sínum hvað það varðar.

Það er líka rétt sem hér var nefnt að það var þó kostur við það fyrirkomulag sem var komið á fót árið 2007 að hér væru gerðir þjónustusamningar þar sem skilgreint væri sæmilega skýrt til hvers framkvæmdarvaldið og Alþingi ætlaðist af Ríkisútvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er hjá Ríkisútvarpinu þurfi menn um leið að horfa til þess hvaða hlutverki Ríkisútvarpið eigi að gegna og hvaða verkefnum það á að sinna. Það verður að fara saman, hlýtur að vera og er eðlilegt verkefni sem við felum ríkisstofnunum og síðan það fjármagn sem þau hafa milli handanna til að sinna þeim. Um það getum við hv. málshefjandi verið sammála.

Á undanförnum árum hefur verið töluverður niðurskurður hjá stofnuninni og það hefur orðið fækkun í mannahaldi. Það er líka ljóst að væntingar um aðgerðir sem hófust fyrir um ári til hagræðingar hafa ekki gengið eftir eins og menn væntu og vonuðu.

Nú má vera ljóst að kröfur á Ríkisútvarpið um samdrátt eru ekki komnar til af neinu öðru í sjálfu sér en mjög erfiðri stöðu ríkissjóðs. Allar ríkisstofnanir hafa þurft að ganga í gegnum mjög erfiða tíma hvað þetta varðar, Ríkisútvarpið eins og aðrar. Það er síðan önnur spurning og á ekki að leysa beint í gegnum fjárlög, að mínu mati, hvert hlutverk Ríkisútvarpsins á að vera. Það á þá að koma í gegnum þjónustusamning o.s.frv. Þegar velt er upp spurningunni um sátt um starfsemi Ríkisútvarpsins tel ég að sæmileg sátt verði að ríkja um hana sem markast þá af þeim verkefnum sem við felum stofnuninni.

Sá niðurskurður sem þessi stofnun hefur mátt sæta á undanförnum árum og takmarkanir á möguleikum á að afla sér tekna á auglýsingamarkaði hafa komið til vegna bágrar stöðu ríkissjóðs og eins líka vegna þess að menn hafa viljað takmarka möguleika þessarar ríkisstofnunar til að afla sér tekna í samkeppni við einkarekna fjölmiðla sem allir hafa mátt þola miklar skerðingar á undanförnum árum, þurft að segja upp mörgu starfsfólki og endurskipuleggja (Forseti hringir.) rekstur sinn vegna bágrar fjárhagsstöðu.