144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek upp þráðinn þar sem honum sleppti hjá hæstv. heilbrigðisráðherra því að það eru vissulega blikur á lofti í heilbrigðismálum. Ég leyfi mér að segja að áhyggjur þjóðarinnar fari dagvaxandi út af fyrsta verkfalli lækna sem stendur yfir og um leið óvissu um nýjan spítala. Vissulega sagði hæstv. heilbrigðisráðherra áðan að búið væri að gefa skýr fyrirheit en við sjáum stöðu sem er algjörlega óviðunandi, ekki aðeins er spítalinn rekinn núna á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og þjónar öllu landinu heldur horfum við upp á stöðugar slæmar fréttir frá spítalanum, hvort sem það er sveppasýking í skrifstofum, mygla, faraó-maurar sem nú er verið að berjast við. Og bráðabirgðalausnir sem voru kynntar okkur, þingmönnum Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins, á fundi með Landspítala eru að setja skrifstofur í gámahús fyrir 100 milljónir. Slíkar lausnir eru auðvitað bráðabirgðalausnir sem eru dýrari til lengri tíma litið.

Það sem mig langar að inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir, og þess vegna er ég nú á tillögu hv. þm. Kristjáns Möllers um að setja eigi niður þingmannanefnd til að fara yfir málið, að þetta er mál sem mér finnst að við eigum að reyna að hefja yfir pólitísk átök og þess vegna er mjög mikilvægt að við reynum að sameinast um það hvernig eigi að standa að fjármögnun. Það hafa nefnilega ýmsar leiðir verið settar fram og eitt af því sem hefur verið nefnt er til að mynda að selja hluta af Landsvirkjun, sem ég tel að sé leið sem aldrei verði sátt um, til að fjármagna nýjan spítala.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt sölu eigna, hæstv. heilbrigðisráðherra hefur líka nefnt það. Við hljótum að geta sest niður við sama borð og rætt um það hvaða lausn eigi að finna. Hæstv. ráðherra sagði áðan, í svari við fyrirspurn hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að það yrði eitthvað kynnt á fyrri hluta ársins. Hæstv. ráðherra, ég spyr: Er ekki rétt að ríkisstjórn reyni að efna til þjóðarsáttar um þetta mál og kalla alla að borðinu, þar með talið stjórnarandstöðuna, þar með talið þá sem eru að vinna á spítalanum, þar með talið þá sem þurfa að leita þangað eftir þjónustu, ekki bara um hvernig spítalinn eigi að vera heldur hvernig eigi að fjármagna hann?