144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fjórða og síðasta fyrirspurn mín til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra snýr að framhaldsskólum og kveikjan er sú sama og í þeim fyrri; hlutir sem gerðust í kjördæmaviku hjá okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis. Það má eiginlega segja að frá fyrsta klukkutímanum þegar við settumst niður á Egilsstöðum fóru að berast okkur áhyggjur sveitarstjórnarmanna og skólayfirvalda af því sem verið var að gera í framhaldsskólamálum. Eitt atriði snýr að framlögum til skólanna miðað við nemendaígildi og annað snýr að hugsanlegum hugmyndum sem komu fram síðar um sameiningu framhaldsskóla. Þess vegna snýst fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra um hvaða áform ráðherra hefur um sameiningu framhaldsskóla.

Áður en ég fer frekar út í það ætla ég að geta þess að í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að við Menntaskólann á Egilsstöðum er áætlað að fækka ársnemum milli áranna 2014 og 2015 um tæplega 50, í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um eina 40, Fjölbrautaskóla Suðurlands um 50, Fjölbrautaskóla Snæfellinga um 30 og Menntaskólanum á Tröllaskaga úr 135 í 112.

Virðulegi forseti. Ég nefndi hér Menntaskólann á Tröllaskaga, það stóra og mikla verkefni sem heldur betur hefur sannað gildi sitt fyrir þessi byggðarlög. Hann kemur í framhaldi af Héðinsfjarðargöngum, var stofnaður árið 2010 með það að markmiði að efla menntastig á utanverðum Tröllaskaga. Skólinn er í sífelldri sókn, nemendum fjölgar og allt hið besta mál sem þar er gert og mikil ánægja með það.

Skólinn var stofnaður árið 2010, í tíð síðustu ríkisstjórnar, á einum mestu erfiðleikaárum íslenskra fjárlaga, a.m.k. hin síðari ár. Skólayfirvöld og bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa miklar áhyggjur af því sem þarna er að gerast. Það er ekki hægt í stuttri fyrirspurn að fara yfir alla þætti, en aðalatriðið snýr að fjárframlögum til skólanna. Það kom líka fram eins og ég segi á þessum fundum frá bæjaryfirvöldum á einum stað að menn hafa heyrt orðróm um sameiningu skóla.

Ég hef fengið upplýsingar um það að á fundi í menntamálaráðuneytinu í september eftir að þing kom saman hafi einhverjir starfsmenn ráðuneytisins jafnvel verið að sýna landakort þar sem var verið að velta vöngum yfir sameiningu skóla.

Ég spyr beint, t.d. um þennan mikilvæga og yngsta skóla sem ég nefndi áðan, Menntaskólann á Tröllaskaga, í heimabyggð okkar hæstv. ráðherra: Eru uppi hugmyndir um að sameina hann einhverjum öðrum skóla á svæðinu? Ef svo er, hverjar?