144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.

311. mál
[20:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Fyrst til taka varðandi það sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi áðan: Af hverju getur Hornafjörður haldið áfram? Ég hef sagt það úr þessum ræðustól að Akureyrarbær sagði upp samningnum 19. desember 2013, það var ekki ríkið sem sagði upp þeim samningi, það var bæjarstjórn Akureyrar sem sagði upp þeim samningi eftir samþykkt fjárlaga. Það er því þeirra ákvörðun að gera þetta á þann hátt.

Varðandi það sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir hérna þá er ég í grunninn sammála og ég held við séum nokkuð sammála um meginatriðið í þessari umræðu. Það ber þó að hafa í huga þegar rætt er um Akureyrarmódelið að þar voru fleiri þættir inni líka. Þetta var heilsugæslan, þetta voru málefni fatlaðra, þetta var öldrunarþjónusta, en sérstaklega málefni fatlaðra og heilsugæslan voru samþætt inn í breytingar sem voru gerðar á skólaþjónustu Eyþings þegar Akureyrarbær klauf sig þar út og skólamálin voru felld inn í báða málaflokkana. Þess vegna hafa önnur sveitarfélög meðal annars reynt að sækja inn í þetta form, en það hefur ekki alls staðar tekist vegna þess hvernig skólinn, rekstur skólanna og sú þjónustu sem þar er veitt var samþætt inn í bæði málefni fatlaðra og ákveðna vinnu varðandi heilsugæsluna.

Það sem ég vil undirstrika er það sem menn verða að taka tillit til við umræðu um málefni heilsugæslunnar sérstaklega, að það er vaxandi tilhneiging til þess þegar menn eru að ræða heilbrigðismálin, heilbrigðisþjónustuna, að við eigum frekar að fara inn í þá vegferð að leggja eitthvert heildstætt mat á þörf (Forseti hringir.) einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu heldur en að vera að velta okkur endalaust upp úr tilteknum (Forseti hringir.) þjónustuúrræðum. Ég held að það sé veruleiki sem við eigum eftir að takast á við á komandi árum.