144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eðli málsins samkvæmt taka menn eftir því þegar þúsundir manna koma saman og mótmæla fyrir utan Alþingishúsið. Það vekur athygli mína að ýmsir eru tilbúnir að túlka þessi mótmæli. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki af hverju fólk er að mótmæla nema ég hlusti á viðkomandi einstaklinga.

Ég hlustaði í gær á Kastljósið þar sem var viðtal við einn af forsprökkum mótmælanna, Svavar Knút, og Borgar Þór Einarsson, ritstjóra Deiglunnar, sem var líka þarna að mótmæla. Það vakti athygli mína að þetta fór mjög hratt af vef Ríkisútvarpsins en menn geta fundið þetta á Eyjunni og mörgum Facebook-síðum. Þetta er búið að fá 600 læk núna sem ég tel að sé frekar mikið. Ég vek athygli manna á því að við erum að fjalla um það hvað hér sé á ferðinni. Það kom skýrt fram hjá mótmælendum að þeir vildu alls ekki að ríkisstjórnin færi frá. Hér var lögreglan rædd og það var tekið skýrt fram að mótmælendur teldu lögreglumenn vera vini sína, frændur og nágranna. Stjórnarandstaðan fékk ekki háa einkunn í þessu viðtali.

Ef við viljum vita hvað þarna er á ferðinni hvet ég menn til að skoða þetta og dreifa þessu viðtali því að þeir sem skipulögðu mótmælin tala þarna beint til þjóðarinnar.

Menn hér tala mikið, jafnvel stjórnarandstæðingar sem voru hér í síðustu ríkisstjórn, um að ýmislegt sé í slæmum málum, m.a. eitt það mikilvægasta, heilbrigðismálin. Það er jafnvel talað um að þau séu í rúst. Mér finnst skrýtið að heyra hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar tala þannig. Hvað (Forseti hringir.) vilja þeir hv. þingmenn? Vilja menn að við setjum fjárveitingarnar á þann stað sem þær voru þegar við tókum við? (Forseti hringir.) Ef heilbrigðismálin eru í rúst núna, hvernig væri þá ef við tækjum (Forseti hringir.) þann málaflokk hressilega niður og settum á sama stað og hann var hjá síðustu ríkisstjórn?