144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Ásamt mér eru tólf aðrir þingmenn á tillögunni frá fjórum flokkum.

Í stuttu máli er lagt til að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi, áföllum og jafnvel öðrum vanda meðal allra barna og unglinga í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þeim sem eru yfir viðmiðunarmörkum verði boðið upp á viðurkennt námskeið sem byggist á hugrænni atferlismeðferð og öðrum meðferðum. Foreldrum barna sem skimast yfir viðmiðunum fái einnig fræðslu um tilfinningavanda og helstu aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar. Þá er lagt til að verkefni stofnana sem koma að geðheilbrigðismálum barna verði betur skilgreind og gildir það bæði um stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Lagt er til að sérstakt barnateymi verði til staðar sem fjalli um mál barna sem þurfi sértæka þjónustu og að þeim börnum sem þurfi meira inngrip en námskeið verði boðið upp á sálfræðiþjónustu, auk þess sem fjölskyldum þeirra standi til boða meðferð.

Kvíði, þunglyndi, streita og annar tilfinningavandi er algengur, lamandi og líklegur til þess að vera vangreindur og meðhöndlaður með ófullnægjandi hætti hér á landi. Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þjáist helmingur þeirra sem á við heilsubrest að stríða af geðröskunum. Rannsóknir hafa gefið til kynna að um það bil þriðjungur fullorðinna á aldrinum 18–65 ára finni fyrir eða hafi fundið fyrir að minnsta kosti einni geðröskun síðastliðna tólf mánuði og að helmingur finni fyrir tilfinningavanda einhvern tímann á ævinni. Nýleg íslensk rannsókn á algengi geðraskana á höfuðborgarsvæðinu leiddi í ljós tæplega 20% algengi síðastliðna tólf mánuði og rétt um 50% algengi einhvern tímann á ævinni. Þar af var algengi kvíðaraskana 14,4% og lyndisraskana 13%.

Geðraskanir eru almennt vangreindar í heilbrigðiskerfum, jafnvel í allt að 70% tilfella. Þess vegna er nauðsynlegt að skima fyrir vandanum. Þeir sjúklingar sem eru ekki rétt greindir fá ekki þá meðferð sem gagnast þeim best. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi veldur einstaklingum og fjölskyldum mikilli vanlíðan og samfélaginu mikilli byrði og kostnaði á hverjum tíma. Og hér erum við komin að kjarna málsins. Þunglyndi er talið vera fjórða mesta orsök örorku í dag og er spáð öðru sætinu 2020. Í öðru sætinu yfir það sem veldur mestri örorku eftir aðeins fimm ár er þunglyndi.

Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur fjöldi þeirra sem eru með 75% örorku vegna geðraskana aukist úr að vera rúmlega 3.200 árið 1999 upp í tæplega 6.500 á þessu ári. Þetta er gífurlegur fjöldi. Samkvæmt skýrslu OECD er notkun geðlyfja mest hér á landi meðal OECD-ríkjanna og munar helmingi á okkur og öðrum ríkjum. Kostnaður sjúkratrygginga er mestur vegna tauga- og geðlyfja og var 3,4 milljarðar kr. fyrir árið 2012. Sú tala hefur síðan hækkað.

Þá að börnunum, en tillaga þessi beinist ekki síst að þeim. Rannsóknir benda til að algengi kvíðaraskana hjá börnum sé á bilinu 15–20%. Fræðimenn hafa bent á að kvíði hjá barni sem ekki er meðhöndlaður geti á nokkrum árum þróast yfir í þunglyndi. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi barns eða unglings getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar og eykur m.a. líkur á ýmiss konar áhættuhegðun, brottfalli úr skóla og erfiðleikum við að fóta sig á vinnumarkaði.

Vísbendingar hafa komið fram um að algengi tilfinningavanda hjá unglingum hafi aukist í kjölfar efnahagskreppunnar hér á landi en skimað hefur verið fyrir vandanum með stöðluðum spurningalistum frá árinu 2009 í Breiðholti. Í ljós kom að tilfinningavandi hefur aukist verulega, sér í lagi hafði algengi kvíða aukist meðal stúlkna eða frá 7,2% árið 2009 í 26,2% árið 2012. Könnunin í Breiðholti er byggð á svokölluðu Breiðholtsmódeli, sem þróast hefur í hverfinu á síðustu sjö árum. Þetta módel byggir m.a. á því að reynt er að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Breiðholtsmódelið hefur skilað afar góðum árangri en með því að beita því dró verulega úr kvíða og þunglyndi barna í hverfinu.

Í Finnlandi jókst tilfinningavandi barna og unglinga í kjölfar efnahagskreppunnar. Afleiðingar sem Finnar eru enn að vinda ofan af. Meðal þeirra sem lentu í mestu erfiðleikunum var ungt fólk á leið inn á vinnumarkað þegar kreppan skall á og varð utan vinnu í langan tíma, oft kölluð „týnda kynslóðin“. Stór hópur skilaði sér ekki inn á vinnumarkaðinn og lenti á jaðrinum í samfélaginu. Finnsk heilbrigðisyfirvöld hrintu ekki af stað sérstökum úrræðum til að styðja við börn, fjölskyldur og fullorðna á þessum erfiðu tímum. Þvert á móti voru framlög til geðheilbrigðisþjónustu m.a. skorin niður, eitthvað sem við könnumst við. Þetta voru eftir á að hyggja talin vera mikil mistök í Finnlandi. Kreppan markaði ákveðin umskipti á þann hátt að þjónustustig heilbrigðiskerfisins lækkaði. Kjarninn í málflutningi finnskra fræðimanna eftir kreppu hefur verið að það væri ekki aðeins mannúðlegt að þétta öryggisnetið í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og efnahagsþrenginga heldur væri það þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma. Bent hefur verið á að mögulega tengist mikil aukning langtímaörorku og fjölgun barnaverndarmála miklum niðurskurði í heilbrigðis- og félagsþjónustu og hafa Finnar metið það svo að mögulega hafi þeir gengið of langt í niðurskurði á félags- og heilbrigðisþjónustu á árunum 1991–1995. Reynsla Finna kennir okkur mikilvægi þess að bregðast við fyrr en síðar, virkja fólk, skapa möguleika til menntunar, nýta ódýr hópúrræði, þétta starf barnaverndar, styrkja heilsueflingu og efla starf félagsráðgjafa, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, námsráðgjafa og fleiri aðila sem koma að málefnum barna og unglinga.

Talsvert hefur verið fjallað um brottfall nemenda hér á landi úr námi á framhaldsskólastigi og hefur markvisst verið unnið að því að greina þann vanda og finna leiðir til úrbóta. Í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá 2010 er lagt til að gripið sé til aðgerða eins snemma á skólagöngunni og unnt er. Brottfall úr framhaldsskóla hefst oft í grunnskóla og því þarf að bregðast strax við þar, m.a. við kvíða barna. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fjögur af hverjum tíu ungmennum hafa ekki lokið framhaldsskólanámi við 24 ára aldur og er þetta brottfall með því mesta í heimi. Einnig kemur fram að einn af hverjum tíu nemendum í árgangi hættir námi í framhaldsskóla á hverju ári. Leiða má sterkar líkur að því að ógreindur og ómeðhöndlaður tilfinningavandi sé ein ástæða þess að svo margir hverfa frá námi. Tilraunaverkefni sem verið hefur í gangi í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem sálfræðingur hefur verið í skólanum í 50% starfi hefur gefið góða raun og eru vísbendingar um að í kjölfarið hafi dregið úr brottfalli í þeim skóla.

Í dag er aðgengi barna og unglinga að hugrænni atferlismeðferð mjög lítið. Viðurkennd námskeið eru í boði í einstaka sveitarfélögum og á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Vöntun er á sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Foreldrar sem leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga þurfa að greiða fyrir þá þjónustu að fullu sjálfir og er algengt verð fyrir stakan tíma á bilinu 10–15 þús. kr. Samningur er við Sjúkratryggingar Íslands um sálfræðimeðferð fyrir börn en örfáir sálfræðingar hafa nýtt sér hann vegna skorts á fjármagni og erfiðleika við aðgengi. Aðgengi að barnageðlæknum er einnig mjög lítið en fáir barnageðlæknar eru starfandi utan stofnana og fæstir geta tekið að sér ný mál. Langir biðlistar eru eftir sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, þjónustu þeirra sálfræðinga sem eru á heilsugæslu og þjónustu á barna- og unglingageðdeild og hefur fjöldi bráðamála aukist á öllum stöðum. Börn sem eru komin í neyslu geta fengið þjónustu á vegum Barnaverndarstofu, t.d. á Stuðlum. Fyrir börn sem eru í áhættu varðandi neyslu vímuefna eða áfengis eða eiga foreldra, sem eiga við þann vanda að stríða, er boðið upp á viðtalsmeðferð á vegum SÁÁ. Þrátt fyrir að mælt sé með aðferðum eins og hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta inngripi við kvíða og þunglyndi barna og unglinga er ljóst að aðgengi er hvergi nærri nóg að þeirri þjónustu og fá mörg þeirra því lyfjameðferð í staðinn og áður en önnur úrræði hafa verið reynd.

Framtíðin býr í börnum og unglingum þessa lands. Því betur sem hlúð er að þeim því betur mun þjóðinni farnast. Því fyrr og markvissara sem gripið er inn í vanda þeirra því minni verður framtíðarvandinn. Alvarlegur tilfinningavandi og geðraskanir eiga í flestum tilfellum rætur sínar að rekja til barnæskunnar og skólagöngunnar. Algengi tilfinningavanda er talsvert meðal barna og unglinga og hefur það hamlandi áhrif á getu þeirra til þess að taka þátt í leik og starfi og blómstra sem einstaklingar. Kvíði sem ekki er unnið með á æskuárum er líklegur til þess að verða farvegur fyrir þunglyndi og aðra alvarlegri geðsjúkdóma. Sé ekki tekið á vandanum í barnæsku burðast fólk með hann inn í fullorðinsárin með alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi, fjölskylduna og samfélagið í heild sinni.

Beinn kostnaður samfélagsins vegna bóta, glataðra skatta, óhóflegrar notkunar á heilbrigðis- og félagsþjónustu, lyfjum og öðru er gríðarlegur. Erlendis hefur það verið reiknað út að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í átak til þess að sporna við alvarlegum afleiðingum tilfinningavanda og bjóða upp á bestu mögulegu meðferð. Með því að veita börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra meðferð í dag er unnið gegn framtíðarvanda. Foreldrar eru órjúfanlegur hluti af lífi barna sinna og fullorðið fólk snýr hjólum atvinnulífsins og því þarf samhliða að vinna að sambærilegri aðgerðaáætlun til þess að auka aðgengi fullorðins fólks að viðurkenndum sálfræðimeðferðum og bæta geðheilbrigðiskerfi landsmanna.

Virðulegi forseti. Ég vonast eftir góðri umræðu um málið. Með mér á þingsályktunartillögunni eru hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Helgi Hjörvar, Vilhjálmur Árnason, Valgerður Gunnarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Þórunn Egilsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.

Legg ég til að málinu verði vísað til velferðarnefndar að lokinni umræðu.