144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu hér.

Vissulega er yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum ánægjuefni. Það eru mjög háleit markmið að hætta að nota jarðefnaeldsneyti. En ég vil líka taka það fram að slíkum orðum fylgir ábyrgð. Við viljum gjarnan á þessum vettvangi fá að sjá áætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, sjá einhverjar hugmyndir sem eru raunverulegar og afgerandi um það hvernig menn ætla að nálgast þetta háleita markmið.

Ný skýrsla vísindamanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna bendir til þess að málið snúist ekki um að berjast gegn eða reyna að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis heldur að hætta því. Það er verkefni sem við Íslendingar erum einmitt, eins og fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra, í mjög góðum færum með að vera til fyrirmyndar í.

Nokkrar ræður voru fluttar á nýafstaðinni ráðstefnu hér í Reykjavík um málefni norðurskautsins sem vekja manni ákveðnar áhyggjur í þessum efnum, og þá sérstaklega ræður sem fjölluðu um að fyrst ís á norðurskautinu hafi bráðnað — einmitt vegna notkunar jarðefnaeldsneytis — sé hægt að nota tækifærið og nálgast enn meiri olíu og gas, sem mun síðan búa til enn meiri mengun. Það er ákveðin blinda og afneitun fólgin í þeim markmiðum.

Eins heyrði maður talað um hugtakið „aðlögun“ í staðinn fyrir að menn töluðu um að berjast. Sagt var að menn yrðu að aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem væru að verða í heiminum. Það er líka áhyggjuefni. Eins þegar menn eru farnir að tala um svarta losun gróðurhúsalofttegunda, eins og um sé að ræða einhverja hvíta og jákvæða losun gróðurhúsalofttegunda. (Forseti hringir.)

Það er því af mörgu að taka sem ég kemst ekki yfir að nefna hér, en það er mikilvægt að við ræðum þetta mál (Forseti hringir.) á þessum vettvangi og komum með raunverulegar hugmyndir um (Forseti hringir.) hvernig við ætlum að taka á þessum vanda og vera til fyrirmyndar í þessum efnum.