144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:39]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Það er langt í land með að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda, þetta er stórt vandamál á heimsmælikvarða. Losun Íslands er lítil sameind miðað við þá losun sem er í heiminum öllum í dag — nema kannski þegar hérna gjósa eldfjöll. Ekki er þar með sagt að Íslendingar geti ekki bætt sig og ég tel að við getum gert mun betur.

Markmið okkar hlýtur að vera að draga úr öllum uppsprettum gróðurhúsalofttegunda, það hljóta allir að vera sammála um það. Á Íslandi eru þessar uppsprettur einkum bíla- og skipafloti. Með nýrri tækni tel ég mögulegt til nýjunga í tækni að allur bílafloti landsins keyri um á endurnýjanlegri orku eftir ekkert rosalega mörg ár. Íslendingar eru í þeirri öfundsverðu stöðu að við eigum gnótt af orkugjöfum sem menga ekki umhverfið, vatnsaflsvirkjanir og háhitavirkjanir. Að minnsta kosti er verið að reyna að minnka mengunina af háhitavirkjununum. Ég tel að Íslendingar eigi að geta staðið fremst af öllum þjóðum í umhverfismálum. Staðan er mjög góð, fá ríki standa Íslandi framar og nú þegar höfum við uppfyllt allar okkar kröfur innan regluverks EES.

Íslendingar hafa aðstöðu og þekkingu til að vera í broddi fylkingar um losun gróðurhúsalofttegunda og vera þar leiðbeinandi annarra þjóða, leiðbeinandi um fyrirmynd um losun og jöfnun kolefnis, jafnvel eftirlitsaðili ríkja til að fylgja eftir þeim bókunum sem gerðar hafa verið. Það er mjög skakkt að ríki fylgi sjálf eftir eigin stefnu ef annað er mögulegt. Og til að taka undir þetta vil ég nefna að (Forseti hringir.) framkvæmdastýra loftslagssamningsins sagði á ráðstefnunni um helgina að aðrar þjóðir mættu taka sér Ísland til fyrirmyndar.