144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðréttingaraðgerðir.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína eins og annarra að ákveðið hefur verið að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingaraðgerðanna þannig að 40 milljarðar koma til aðgerðanna á þessu ári, ef ég skil það rétt. Það þýðir í mínum huga að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa ákveðið að nota þá 20 milljarða sem koma sem arðgreiðslur úr Landsbankanum, úr eignarhluta ríkisins í fjármálakerfinu, inn í ríkissjóð á yfirstandandi ári umyrðalaust í skuldaleiðréttinguna. Það kemur bara þannig út. Það eru 20 milljarðar sem renna þá beint í skuldaleiðréttinguna — ég sé að stjórnarþingmenn kinka hér kolli, þannig að þetta er væntanlega réttur skilningur hjá mér.

Við vorum einu sinni með áform um það í þessum sal að nota þá peninga til að fjárfesta í uppbyggingu í atvinnulífinu, uppbyggingu skapandi greina og græns iðnaðar, nýsköpunar, menntunar, til að fjármagna ýmsar nauðsynlegar byggingar sem þarf að ráðast í, viðhald, og til að greiða niður opinberar skuldir. Sú áætlun hét fjárfestingaáætlun og var meðal annars fjármögnuð af þessu fé.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra því að mig langar til að skyggnast inn í hans hugarheim og reyna að skilja hann betur: Datt hæstv. fjármálaráðherra ekkert annað í hug sem æskileg not fyrir þessa peninga en að láta þá streyma beint í skuldaleiðréttinguna, sem er mjög umdeild? Kom aldrei til greina að nota þessa peninga í uppbyggingu í atvinnulífinu? Kom aldrei til greina að nota þessa peninga til að greiða niður opinberar skuldir? Kom ekki til greina að nota peningana í nauðsynlegt viðhald á vegum? Kom ekki til greina að nota peningana til að setja í spítalann og uppbyggingu á honum, til að setja í uppbyggingu í menntakerfinu? Kom ekkert af þessu til greina?