144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[14:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ítarlega og góða spurningu. Það efni sem hv. þingmaður spyr einkum út í, þ.e. hvernig þessar aðgerðir nýtast ólíkum tekjuhópum, er eitthvað sem hefur vakið sérstaka athygli eftir að niðurstöðurnar voru kynntar. Þar birtist glögglega hversu vel þessi aðgerð nýtist fólki með meðaltekjur og ekki síður fólki með lægri tekjur.

Það er rétt sem hv. þingmaður gat um að 75% fjármagnsins renna til einstaklinga sem eru með undir 7 millj. kr. í árstekjur. Megnið af því sem eftir er, 25%, rennur til þeirra sem eru rétt ofan við þær tekjur. Sárafátt hátekjufólk nýtur þessara aðgerða, sem er þveröfugt við áhrifin af 110%-leiðinni þar sem helmingur fjármagnsins rann til 775 heimila, þ.e. 1% heimila. Það má líka stækka þann hóp og skoða þá 2.500 aðila sem fengu mest út úr 110%-leiðinni. Þá kemur í ljós að þeir fengu hátt í 36 milljarða af þessum 45 — 2.500 aðilar fengu hátt í 36 milljarða í þeirri aðgerð. Þar var meðaltalsleiðréttingin 14–15 millj. kr. og hjá 1.250 hæstu var meðaltalsleiðrétting 21 millj. kr. Dæmi voru um að í 110%-leiðinni fengju menn 100 millj. kr. niðurfærslu, eitt heimili. Fólkið sem stóð fyrir þeirri aðgerð og taldi hana flaggskip aðgerða sinna í skuldamálum kemur svo hingað og reynir að gagnrýna þessar aðgerðir nú á þeim forsendum að einhverjir sem hafi nógu háar tekjur til þess að geta lifað af þeim fái einhverja bót sinna mála.

Það er náttúrlega ótrúlegt (Forseti hringir.) að verða vitni að því, virðulegi forseti, að menn skuli halda áfram að hjakka í þessu fari.