144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

leiðrétting til fólks á leigumarkaði.

[10:54]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vona líka að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi tekið eftir því sem við höfum verið að gera sem snýr að skuldaleiðréttingunni. Þar höfum við verið að ljúka verkefni sem hans ríkisstjórn treysti sér ekki í þrátt fyrir hvatningu frá hv. þm. Helga Hjörvar til þess að fara í nákvæmlega það verkefni.

Það er því algjörlega á hreinu að við munum standa við það sem við lofuðum í aðdraganda kosninga. Við erum að gera breytingar á húsnæðiskerfinu. Við erum að vinna frumvörp varðandi grundvallarbreytingar á húsnæðiskerfinu. Það er kannski verkefni sem Samfylkingin treysti sér einfaldlega ekki fyllilega til að sinna. Sem dæmi um það var að þegar ég kom inn í velferðarráðuneytið og tók við félags- og húsnæðishlutanum fann ég til dæmis ekkert frumvarp um húsnæðisbætur, ekkert. (Gripið fram í: … tilbúið algjörlega.) Það var ekkert frumvarp, það voru engin drög að frumvarpi til staðar í ráðuneytinu. Við höfum verið að vinna það frá grunni frá því að ég kom inn í ráðuneytið. (Gripið fram í.)

Það hefur margítrekað verið spurt hér hvaða mál það eru sem ég hyggst koma með núna í vetur sem hafa með húsnæðismál að gera. Ég held að það sé orðið langt síðan ráðherra hefur talað jafn mikið um og hugað jafn mikið að málefnum leigjenda. Það er heldur ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að það sé ekkert í skuldaleiðréttingunni sem snýr að fólki á leigumarkaðnum. Það er raunar töluverður hluti af skuldaleiðréttingunni sem fer í persónuafslátt vegna þess að fólk er ekki lengur með lán. Við erum ekki með nákvæmar upplýsingar um hversu stór hluti af því er fólk sem er núna á leigumarkaðnum en við höfum séð að það hefur fjölgað á leigumarkaðnum.

Síðan vil ég benda á að í séreignarsparnaðinum er sérstaklega verið að hvetja ungt fólk, sem er þá væntanlega á leigumarkaðnum, til þess að leggja til hliðar og það getur þá notað það sem útborgun til kaupa á húsnæði. (Forseti hringir.) Bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármála-og efnahagsráðherra sögðu á kynningunni og við blaðamenn á kynningunni að það væri (Forseti hringir.) verið að vinna að tillögum sem snúa að leigjendum og við höfum sýnt það, svo sannarlega, að þessir menn standa við orð sín.