144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

starfsstöðvar lögreglustjóra í Norðausturkjördæmi.

234. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nú orðið svolítið síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram, þ.e. 9. október, og er ánægjulegt að hæstv. ráðherra sjái ástæðu til að koma hingað og taka þátt í þessari umræðu með mér.

Við höfum töluvert rætt málefni bæði lögreglu og sýslumanna og fram hafa komið athugasemdir frá sveitarfélögum um þessi mál og áhyggjur af hinum ýmsu atriðum. Þegar frumvarpið var lagt fram var ekki búið að greina mannaflsþörfina hjá lögregluembættunum í samræmi við frumvarpið. Það var verkefnisstjórn sem átti að útfæra það. Það var ekki almenn ánægja með það en ein af þeim spurningum sem mig langar til að varpa til ráðherrans er hvort búið sé að greina þessa mannaflsþörf.

Síðan var fjárhagsleg greining. Það var ekki búið að gera hana og finna hver viðbótarkostnaðurinn fyrir ríkið yrði. Einungis var talað um sparnað vegna þessarar aðgerðar.

Í skýrslunni sem við vorum með til umfjöllunar hér ekki alls fyrir löngu, þar sem þetta snýr í rauninni fyrst og fremst að öryggi íbúanna og að sá ventill sé til staðar sem löggæsla er, þá upplifði fólk að það vantaði töluvert vegna þess sem á undan er gengið. Sem betur fer var bætt úr því með auknu fjárframlagi til löggæslunnar sjálfrar. Það er auðvitað mikilvægt til að nærtengslin rofni ekki þegar embættin og umdæmin verða stækkuð eins og nú lítur út fyrir að orðið sé að veruleika. Það er í sjálfu sér hluti af velferð að þetta sé vel framkvæmt og að löggæslunni sé sinnt sem best og víðast.

Það var talað um kostnað og annað slíkt og að þetta gæti sparað 64 milljónir vegna fækkunar yfirlögregluþjóna og millistjórnenda. Það er í rauninni eina hagræðingin sem reiknuð hefur verið því að ekki var reiknað með biðlaunarétti eða neinu slíku. Fjármálaráðuneytið gerði athugasemdir við það. Það væri áhugavert að heyra í ráðherranum um þau mál.

Við þingmenn kjördæmisins fengum nú síðast blað frá Fjarðabyggð þar sem segir að fjármagnið dygði ekki til. Af þeim sökum langar mig að beina þessum fjórum spurningum til ráðherrans:

1. Hvernig miðar breytingunum sem verða á starfsstöðvum lögreglustjóra í Norðausturkjördæmi í samræmi við lögin?

2. Telur ráðherrann að þjónusta lögreglustjóraembættanna verði svipuð nú og eftir breytingarnar?

3. Telur ráðherra að áætlaðar fjárveitingar til lögreglustjóraembættanna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 nægi til að tryggja sambærilega þjónustu og nú er veitt?

4. Telur ráðherra að sá tími sem veittur var til að undirbúa og skipuleggja ný lögreglustjóraembætti og starfsemi þeirra sé og hafi verið nægur?