144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[16:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Núgildandi lög um fiskveiðistjórn gera ráð fyrir ýmsum mótvægisaðgerðum sem draga eiga úr neikvæðum samfélagslegum áhrifum af breyttum útgerðarháttum og flutningi aflaheimilda á milli byggðarlaga, sem þingheimi ætti svo sem að vera ljóst alveg frá því framsal var leyft árið 1990.

Með breytingum á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, 25. júní 2013, fékk Byggðastofnun til ráðstöfunar aflaheimildir til stuðnings smærri sjávarbyggðum í bráðum vanda. Samkvæmt reglugerð um ráðstöfun þessa aflamarks skal miða við að íbúar séu færri en 400 og hafi fækkað undanfarin tíu ár, byggðakjarninn tilheyri vinnusóknarsvæði með færri en 10 þús. íbúa og sé í a.m.k. 20 kílómetra akstursfjarlægð frá byggðakjarna sem telur meira en þúsund íbúa. Jafnframt er áskilið að hlutfall starfa við veiðar og vinnslu sé a.m.k. 20% allra starfa og að aflamark Byggðastofnunar skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins.

Á grundvelli þessarar heimildar hefur Byggðastofnun stofnað til samstarfsverkefna um eflingu sjávarútvegs í tíu af þeim tólf litlu þorpum sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Ofangreindar mótvægisaðgerðir beinast einkum að því að tryggja byggðafestu í fámennum byggðarlögum sem eru utan vinnusóknarsvæðis stærri þéttbýlisstaða og vandséð er hvaða starfsemi gæti komið í stað sjávarútvegs sem meginundirstöðu atvinnulífsins.

Sjávarútvegur er aðeins ein af mörgum stoðum atvinnulífs á vinnusóknarsvæðum margra stærri þéttbýlisstaða. Innan núverandi fiskveiðistjórnarkerfis eru takmarkaðir möguleikar á því að koma í veg fyrir tilflutning aflaheimilda innan eða milli slíkra svæða. Hagræðing á þessu sviði er raunar snar þáttur í uppbyggingu sjávarútvegs á Íslandi á undanförnum árum, en henni fylgir oft flutningur aflaheimilda á milli byggðarlaga.

Breytingar í sjávarútvegi geta valdið byggðarlögum margvíslegu óhagræði, ég tek undir með þingmanninum hvað það varðar, og nauðsynlegt er að bregðast við þeim með uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi, jafnframt því sem aðgerðir á borð við umtalsverðar samgöngubætur geta skapað margvíslega nýja möguleika í atvinnulífi stærri byggðarlaga.

Hins vegar er mikilvægt að takmarkaðar aflaheimildir til mótvægisaðgerða verði nýttar á þeim stöðum þar sem atvinnulíf er fábreytt, samfélögin fámenn og fjarlægðir miklar. Slík samfélög eiga í mörgum tilvikum fáa eða enga aðra möguleika til að byggja á en sjávarútveg. Húsavík er ekki einn slíkra staða og því ekki hægt að grípa til ofangreindra mótvægisaðgerða til að mæta brotthvarfi Vísis.

Rétt er að benda á að Alþingi hefur samþykkt viðamiklar aðgerðir á sviði uppbyggingar innviða við Húsavík í tengslum við áform þýska fyrirtækisins PCC um byggingu kísilvers.

Þá er rétt að benda á að það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, meðal annars með dreifingu opinberra starfa. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur og mun leggja sitt af mörkum í þeim efnum eftir því sem tilefni gefst til.