144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Forsætisráðherra segir ekki hægt að horfa til kjaradeilna lækna án tillits til væntanlegra samninga á almenna vinnumarkaðnum og vill skoða sátt á vinnumarkaði um launahækkun lækna. Nú eru rúmar þrjár vikur liðnar frá því læknar hófu verkfallsaðgerðir sínar og verkfall tónlistarkennara í kjaradeilu við sveitarfélögin hefur staðið yfir í fimm vikur. Þetta er grafalvarleg staða og kostar samfélagið mikið, tjón sem er ekki eingöngu hægt að meta til fjár, því að biðlistar hrannast upp í heilbrigðiskerfinu með afleiðingum fyrir það fólk sem bíður, með áhrifum á heilsu þess og álagi á heilbrigðiskerfið.

Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á stöðunni í kjaradeilu lækna. Ekki er hægt að skilja í sundur fjárhagsvanda Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana þegar horft er til launakrafna lækna. Nýr Landspítali mundi virkilega hafa áhrif þar á og bæta kjör og aðbúnað lækna til framtíðar.

Forsætisráðherra ætti að líta í eigin barm þegar hann gefur tóninn um að þeir á almenna markaðnum eigi að horfa til þess að ná einhverri sátt. Hvað hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að liðka til fyrir komandi kjarasamningum? Þvert á móti er ráðist að kjörum almenns launafólks í landinu með auknum gjöldum í heilbrigðiskerfinu, hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og hita og rafmagn, niðurskurði til vinnumarkaðsaðgerða, styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins og fólki á vinnumarkaði, sem hefur hrökklast burt úr námi af einhverjum ástæðum, er meinaður aðgangur að framhaldsskólunum. Sköttum er létt af hátekjufólki á kostnað lágtekjufólks.

Er þetta það innlegg sem við sjáum í kjarasamningum sem eru fram undan á almenna vinnumarkaðnum og á forsætisráðherra (Forseti hringir.) að tala svona til almenna vinnumarkaðarins? Nei, ég held að hann ætti að líta sér nær. Það er til skammar hvernig komið er fram gagnvart ræstingafólki í Stjórnarráðinu (Forseti hringir.) og það ber vitni um að forsætisráðherra hefur ekki mikinn skilning á kjörum almennings í þessu landi.