144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almenn hegningarlög.

395. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Það fjallar um að afnema fangelsisrefsingar fyrir tjáningu skoðana.

Ef áhorfendur eru í nokkrum vafa tek ég fram að, já, það er árið 2014.

Frumvarp þetta var lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki rætt. Er það nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Flutningsmenn frumvarpsins telja slíkar heimildir ekki standast nýrri viðhorf til mannréttinda, sérstaklega með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því yfir með skýrum hætti að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga. Í nóvember 2013 lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, miklum áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi vegna frumvarps til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, en það frumvarp varðaði mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot, sem var samþykkt 29. janúar 2014. Það var 109. mál á 143. löggjafarþingi.

Í fréttatilkynningu frá stofnuninni kemur fram að fangelsisdómur sé of hörð refsing fyrir ákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi og séu veikt orðuð með miklu svigrúmi til lagatúlkunar. Er því með þessu frumvarpi lagt til að heimild til að dæma fangelsisrefsingu verði felld brott úr þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður, hversu lögmætar svo sem þær skorður séu í eðli sínu.

Vert er að vekja athygli á því að þau réttindi sem geta skarast við tjáningarfrelsið, til að mynda æra manna, njóta einnig verndar að einkarétti og geta menn sem telja að sér vegið höfðað einkamál og krafist bóta eftir atvikum. Það er ekki ætlun flutningsmanna að hrófla við þeim réttindum, enda er með frumvarpinu einungis lagt til að ekki verði lengur unnt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir tjáningu skoðana.

Flutningsmenn telja of langt gengið á tjáningarfrelsið í XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Frumvarpið sem hér er lagt fram breytir því ekki í grundvallaratriðum og gengur ekki nægilega langt til að koma tjáningarfrelsisverndinni í ásættanlegt horf hér á landi. Hins vegar telja flutningsmenn raunhæft að ná samstöðu um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda eru þær skref í rétta átt.

Í þessu frumvarpi er fjallað um ýmsar greinar almennra hegningarlaga, sumar þeirra lögmætar að mati þess sem hér stendur og aðrar ólögmætar. Það eru til lögmætar takmarkanir á tjáningarfrelsi en þær takmarkanir þurfa að vera til þess að vernda önnur réttindi manna, t.d. friðhelgi einkalífsins eða rétt til öryggis. Hins vegar eru í almennum hegningarlögum á Íslandi í dag greinar á borð við 125. gr. almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Ég er enginn stuðningsmaður þess að draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegra trúarbragðafélaga. Ég hef mælt gegn því að fólk geri það, sérstaklega þegar kemur að miklu gríni um islam. Ástæðan er sú að ég tel það ganga gegn þeirri þróun sem við þurfum að fara í sem er meira samtal milli trúarhópa. Ég tel það oftast ógagnlegt fyrir lýðræðislega umræðu að gera grín að trúarbrögðum. Að því sögðu hlýtur það að vera réttur fólks að gantast með trúarskoðanir, það hlýtur að vera innan ramma tjáningarfrelsisins. Síðast þegar ég athugaði mannréttindasáttmálann og stjórnarskrá hafði fólk ekki rétt til þess að verða aldrei móðgað. Fólk getur bara lifað með því að vera móðgað, það er ekki til of mikils ætlast í frjálsu samfélagi. Það er nokkuð sem við greiðum fyrir það að mega tjá skoðanir okkar.

125. gr. almennra hegningarlaga er sú grein sem ég hef hvað mest á móti. Að því sögðu legg ég áherslu á að hér er ekki stungið upp á því að sú grein verði fjarlægð vegna þess að það er hluti af stærri umræðu sem þarf helst að eiga sér stað í samhengi við þingsályktunartillögu sem var samþykkt á hinu háa Alþingi árið 2010. Hér er þess í stað lagt upp með að fella burt fangelsisrefsingar. Ástæðan fyrir því að við göngum ekki lengra í átt að sjálfsögðu tjáningarfrelsi að þessu sinni er sú að við teljum raunhæfan möguleika að fólk geti sameinast um þetta, að jafnvel þótt það sé hlynnt þvælu eins og 125. gr. almennra hegningarlaga hljóti það í það minnsta að vera sammála því að ekki sé við hæfi að hóta fangelsisrefsingu við slíkum brotum.

Ísland hefur upp á síðkastið, með því á ég við seinustu örfá ár, síðan 2010, unnið sér inn orðstír erlendis sem einhvers konar mekka tjáningarfrelsisins. Það er með þeim sjálfsögðu fyrirvörum sem ávallt varða tjáningarfrelsið, það eru til lögmætar skorður á tjáningarfrelsinu. Þær mega ekki vera bara einhvern veginn, þær mega ekki vera bara eftir geðþótta, þær mega ekki vera eftir því hvað móðgar fólk. Það gengur ekki í lýðræðissamfélagi, reyndar hvergi ef út í það er farið.

Þessi orðstír hefur upp á síðkastið, undanfarin tvö ár eða svo, orðið fyrir mjög alvarlegum hnekki. Fyrr í dag rakst ég á frétt þar sem „Reporters Without Borders“, Fréttamenn án landamæra, fjölluðu um að tjáningarfrelsið hefði orðið fyrir skaða hérlendis seinastliðin tvö ár. Það eru ekki bara meiðyrðamálin sem valda því heldur einnig ýmsar athugasemdir stjórnmálamanna. Sömuleiðis eru að missa trúna á okkur þeir aðilar sem höfðu, og hafa vonandi enn, áhuga á að fjárfesta hér í upplýsingatækniiðnaði á þeim forsendum að hér sér góð löggjöf um tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi. Þetta er mjög alvarleg þróun. Við erum að missa af lestinni og þótt við hefðum viljað leyfa þeirri vinnu sem á sér stað núna í hæstv. mennta- og menningarmálaráðuneyti að ljúka því ferli að gera Ísland að leiðandi ríki í málefnum upplýsinga- og tjáningarfrelsis er þetta nokkuð sem liggur á. Það liggur á að fjarlægja heimildir til fangelsisrefsingar við tjáningarbrotum á Íslandi.

Ég hef enn ekki heyrt nein góð rök fyrir því að hafa hótanir um fangelsisrefsingar í lögum þegar kemur að tjáningarbrotum og ég býst ekki við að ég muni heyra nokkur góð rök um þau enda veit ég ekki til þess að þau séu til eða hafi nokkurn tíma verið til.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að svo stöddu en legg til að það gangi til 2. umr. og umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.