144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

breytingar á virðisaukaskatti.

[11:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eini matarskatturinn sem er á Íslandi er sykuskatturinn sem Samfylkingin lagði á á síðasta kjörtímabili, 3 milljarðar sem voru lagðir á heimilin með milljarðs hækkun á skuldum heimilanna, 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs. Það er eini matarskatturinn. Við erum að afnema hann.

Hvað á matur að hækka samkvæmt útreikningum hlutlausra aðila? Með nýjustu breytingunni má gera ráð fyrir að matur hækki mögulega um 1%, mögulega. Á móti kemur að kaupmáttur ráðstöfunartekna er að vaxa út af öðrum aðgerðum og það er aðalatriðið, að horfa á málið út frá stöðu neytandans er auðvitað aðalatriði þessa máls. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeirri gagnrýni sem haldið er á lofti hér, ekki steinn yfir steini.

Það sem er greinilega verst fyrir stjórnarandstöðuna er að eftir því sem málið er skoðað betur kemur betur og betur í ljós hversu mikill ávinningur er af því fyrir alla, hlutfallslega jafnt fyrir allar tekjutíundir, hlutfallslega jafnt fyrir þá sem eru með lægri launin og þá sem eru með hærri launin. Það er einfaldlega rangt að meira sé upp úr þessum breytingum að hafa fyrir efri tekjutíundirnar.