144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

upplýsingar um skattaskjól.

[11:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu hér rétt áðan þá hefur málinu verið stillt þannig upp gagnvart ráðuneytinu að einungis muni koma til greiðslu fyrir slíkar upplýsingar ef einhver innheimta verður. Þess vegna sé ég ekkert því til fyrirstöðu að látið verði á þetta reyna af hálfu embættisins án þess að til komi sérstakar fjárveitingar að svo stöddu.

Um fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra er það annars að segja að á undanförnum árum hefur embættið haft sérstakt tímabundið viðbótarframlag til þess að efla skattrannsóknir. Því sérstaka viðbótarframlagi er að hluta til áfram haldið á næsta ári þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir því, þegar því var bætt við, að það félli að fullu niður á næsta ári. Við höfum sem sagt ákveðið að framlengja það að hluta. Það er þess vegna rangt sem sagt er á forsíðu Fréttablaðsins í dag að einhver sérstakur niðurskurður sé í gangi. Við hættum þvert á móti við að láta tímabundna framlagið falla niður og framlengjum það. (Forseti hringir.)

Þetta færir okkur að þeirri niðurstöðu að við þurfum að skoða sérstaklega (Forseti hringir.) Amnesty-málin og við erum með þau í sérstökum (Forseti hringir.) starfshópi. Ef það koma hins vegar upp hindranir (Forseti hringir.) hjá skattrannsóknarstjóra varðandi kaup á gögnum (Forseti hringir.) mun ráðuneytið bregðast við því.