144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Nógu stórt er þetta mál en það versnar þegar við fáum nánari upplýsingar um hvernig það gekk fyrir sig. Þegar við erum að tala um svona stórt mál sem á að henda inn utan dagskrár á fund hv. atvinnuveganefndar, án pappíra eða gagna, þá blöskrar manni algjörlega.

Ég vil minna hæstv. forseta á að þegar tekist var á um það í hvaða nefnd málið ætti að fara þá var eitt af því sem mætti leiða til þess að menn yrðu sáttari að leitað yrði umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar. Nú liggur fyrir að sú umsögn var að koma inn í atvinnuveganefnd, bara um Hvammsvirkjun, þ.e. þingmálið eins og það var áður. Hún kom inn í gær. Eftir það bæta menn við tillögum um allt upp í átta virkjunarkosti án þess að það fari inn í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er eiginlega svo galið að maður trúir því varla að það sé að gerast, sérstaklega í þessum málaflokki þar sem hefur áður verið efnt til ófriðar. Ég held að það sé brýnt að menn fundi (Forseti hringir.) og stoppi strax og leysi málið í stað þess (Forseti hringir.) að við förum að hafa þetta (Forseti hringir.) hangandi yfir okkur í allan dag.