144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Samkvæmt öllum talnalegum greiningum hefur þjóðkirkjan sætt niðurskurði framlaga upp á mörg hundruð milljónir eftir hrun í aðhaldsaðgerðum. Eins og ég rakti í ræðu minni kom það fram á samráðsfundi Alþingis og þjóðkirkju að kirkjan var afskaplega yfirveguð gagnvart því hvort það væri raunhæft að vinna það fé allt til baka. Menn viðurkenndu alveg að það yrði kannski ekki endurheimt. Í því felst að kirkjan sætti sig við tilteknar vanefndir af hálfu ríkisins á kaupsamningnum því að þessi framlög voru hluti kaupsamningsins.

Það sem ég geri athugasemdir við er að það sé gengið enn lengra núna með því að láta aðhaldskröfu ríkisrekstrarins gilda um þjóðkirkjuna eins og hún væri ríkisstofnun sem mér finnst hún ekki vera. Ég tel það ekki réttlætanlegt. Kannski væri eðlilegt að reyna að brúa aftur þetta bil sem er afleiðing niðurskurðarins eftir hrun og gera það í einhverjum áföngum á mjög löngum tíma. Kannski verður það aldrei brúað til fulls, eins og kirkjunnar menn sjálfir viðurkenna. Kirkjan tók sem sagt sannanlega á sig mikinn niðurskurð sem hún ætlar sér að búa við að einhverju leyti sem ég met mjög við þjóðkirkjuna og forustusveit hennar.

Hitt sem lýtur að sóknargjöldunum var síðan mistök sem gerð voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þau voru leiðrétt af þeirri ríkisstjórn og byrjað að setja peninga í að brúa bilið vegna þess að of mikið var skorið niður í sóknargjöldunum. Ríkisstjórnin sem tók við heldur áfram á þeirri vegferð, gerir samþykkt um að leiðrétta þetta á fjórum árum, en fjárlagatillagan núna endurspeglar ekki fyrsta hluta þess samkomulags. Það er þar sem ég tel að við þurfum að bæta í.