144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[12:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þetta mál og byrja á því sem endað var á. Ég held að það sé skynsamlegt og nauðsynlegt að breyta þessari skipan til að tryggja jafnræði því það var margt sem breyttist við flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Jöfnunarframlögin sem tekin voru upp og hlutverk þeirra skipta þar af leiðandi fleiri máli en áður. Það er nauðsynlegt að taka af þann vafa um það að þessari ráðgjafarnefnd ber að taka tillit til framlaga vegna þjónustu við fatlaða.

Varðandi 2. gr. þar sem fjallar um fasteignamatið þá er einmitt komið inn á að það sé ekki beint heppilegt hvernig þetta er viðhaft í dag. Eflaust taka margir undir að þessi aðferð gæti verið heppilegri til að ná fram raunmatsverði miðað við stöðu á hverjum stað. Það kemur hér fram að um sé að ræða 13 þúsund skrifstofu- og verslunareignir og aðrar eignir sem eru fyrir léttan iðnað.

Mig langaði til að spyrja hvort það sé til einhver skipting ef ráðherra hefur tök á að svara. Hversu mikið af þessu er utan stórhöfuðborgarsvæðisins? Eru það mjög fáar eignir? Hvernig dreifast þær? Það er áhugavert í ljósi þess að við vitum að fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu yfir sambærilegar eignir er allt öðruvísi en úti á landi. Það hefði líka verið áhugavert að sjá hversu margar hækka og hversu margar lækka. Ég tek undir að þær miklu og mismunandi breytingar sem þetta hefur í för með sér. Í ljósi þess hvernig þetta hefur verið þá myndast þarna bil sem getur orðið of stórt, sérstaklega hjá þeim sem fá mikla hækkun.

Eins og rakið er í frumvarpinu eru undirliggjandi einhverjir leigusamningar og annað. Þá er skynsamlegt held ég að fara leiðina sem bent var á til að mynda þessa aðgerð og taka þetta í skrefum. Sú leið sem hér er lögð til, að þetta kom ekki að fullu inn fyrr en 2017, er kannski jákvæð að því leyti að þessu er ekki frestað um eitt ár eins og var lagt til heldur njóta þeir sem fá lækkun þess strax og þurfa ekki að bíða eftir því. Ég veit ekki hvort hægt er að tala um jafnræði í þessu sambandi en a.m.k. er verið að leggja til að þeir njóti strax lækkunarinnar og hinir sem fái mikla hækkun fái hana í skrefum. Það er kannski eina leiðin til að milda þessa ákvörðun.

Það hefði verið mjög áhugavert að sjá, af því að það liggur fyrir, hvernig fjöldi eignanna skiptist því að þar á eftir er einungis talað um hvað þetta þýði í tekjuaukningu. Ef engin lagasetning væri þá þýddi þetta tæplega 1,3 milljarðar á næsta ári en breytist þess í stað og verður 150 milljónir. Á árinu 2016 hefðu það orðið rúmir 1,3 milljarðar en verða 1,2 og svo verða það 1,4 milljarðar árið 2017. Ég mundi vilja sjá þetta skýrt. Kannski verð ég að senda inn fyrirspurn þess efnis til að fá að sjá þetta út frá kjördæmum eða einhverju slíku. Ég held að það gæti verið mjög áhugavert að greina þetta. Sums staðar hefur fasteignaverð, úti á landi sérstaklega, stigið í rólegheitum upp á við. Þó að við vitum auðvitað að þunginn sé á höfuðborgarsvæðinu þá hefði verið áhugavert að vita hitt.

Mig langar til að víkja næst að b-lið 2. gr. sem mér sýnist vera enn ein mótvægisaðgerðin við skuldaniðurgreiðsluloforð ríkisstjórnarinnar sem nú er hafin. Hér er sagt að það þýði tekjutap fyrir sveitarfélögin upp á tæpa 4 milljarða kr. Ég hef áður sagt að ég hefði ekki viljað nýta séreignarsparnaðinn með þessum hætti. Ég hefði viljað koma á húsnæðissparnaði. Ég vil að við eigum séreignarsparnaðinn okkar til þeirra nota sem honum voru upphaflega ætluð. Ég mundi viljað sjá þetta sem einhvern millileik en ekki framtíðarúrræði. Ég veit ekki hvort hægt er að festa í lög með einhverjum hætti húsnæðissparnað sem gæti skilað jafn miklu inn og séreignarsparnaðurinn gerir. Ég hef litið þannig á að hann komi mér til góða síðar meir og hefði ekki viljað nýta hann með þessum hætti en það er búið að gera það og er enn verið að því.

Hér hefur svo sem líka komið fram og er rakið í þessu frumvarpi að sveitarfélögin hafi fengið vegna úttektar á síðasta kjörtímabili um 13 milljarða miðað við meðalútsvar. Það eru þrátt fyrir allt líka framtíðartekjur sveitarfélaganna og hér er enn verið að skerða þær.

Fyrst og fremst varðar þetta jöfnunarsjóðinn sem á að fá 2,4 milljarða vegna bankaskattsins til að mæta þessari aðgerð, þ.e. skuldaniðurgreiðslunni. Þeir peningar verða þá ekki notaðir í eitthvað annað. Það er alveg ljóst af hálfu sveitarfélaganna. Ef bankaskatturinn hefði verið innheimtur, burt séð frá skuldaniðurgreiðslu ríkisstjórnarinnar, þá hefðu þessir fjármunir komið inn í jöfnunarsjóð og það hefði verið hægt að nýta þá. Ég held að mörg sveitarfélög hefðu haft afskaplega mikið gagn af þeim peningum. Í gær var nefnt úr ræðustól að skuldaaðgerðirnar væru búnar að kosta um 1 milljarð fyrir ríkissjóð — ég veit ekki hvort þetta er þá til viðbótar við það. Þetta er alla vega að verða svolítið stór pakki í kringum niðurgreiðsluna sem hefði væntanlega mátt nýta til annarra góðra verka bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Ég hef lýst því hér áður að mér finnst ekki gott að gera þetta með þessum hætti og tel að við hefðum átt að sjá það fyrir að jöfnunarsjóður gæti nýtt þessa fjármuni betur. Áhugavert væri að fá að vita, eins og ég sagði hér áðan, um skiptinguna á skattamálunum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga í 1. umr. um þetta mál.