144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú rannsókn sem hv. þingmaður vitnar til er frá Rannsóknasetri verslunarinnar og nefndin kynnti sér niðurstöður þeirrar rannsóknar. Í henni er kannað hvernig gengisbreytingar á krónunni skiluðu sér inn í verðlag og þá ef gengi krónunnar styrkist hvort það leiddi til lækkunar á verðlagi og ef gengi krónunnar veiktist hvort það leiddi til hækkunar á verðlagi. Þá kom í ljós að mismunur var á þessu. Hækkanir á innkaupsverði skiluðu sér hraðar en lækkanir á innkaupsverði út í verðlag.

Af þessu er hins vegar ekki hægt að draga þá ályktun að þegar gerð yrði breyting á sköttum með þessum hætti giltu sömu lögmál. Fólk fylgist kannski ekki svo grannt með gengisbreytingum sem eru litlar og ógagnsæjar og gerast bara svona eftir hendinni. Hérna erum við að tala um hápólitískt mál, breytingu á skattstofni, sem er rækilega kynnt, allir neytendur varaðir við, meira að segja kaupmennirnir eru nú þegar farnir að lækka verð vegna þess að þeir reikna með að vörugjöldin fari af. Ég held því að önnur lögmál gildi um þetta.