144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þegar maður hlustar á málflutning sumra þingmanna Framsóknarflokksins um þessar gríðarlegu skattahækkanir á nauðsynjar fyrir heimilin mætti jafnvel leita að einhverjum samjöfnuði í leikverkum absúrdleikhússins hjá þeim félögum Ionesco og Beckett.

Það sem vakti athygli í umræðunni hér fyrr í dag er að það er ekki ætlunin að láta staðar numið við 11% virðisaukaskatt. Áform eru um aðra hækkun í kjölfarið á næsta ári upp í 14%, sem kynnt eru í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti því yfir að slík hækkun kæmi vel til greina af hálfu Framsóknarflokksins ef það væru einhverjar aðgerðir á móti, þá væntanlega lækkun á nuddpottum og öðru slíku eins og í þessu tilfelli.

Ég spyr þess vegna hv. þingmann hvernig hún sjái það hafa áhrif á bókaútgáfuna og tónlistina, sérstaklega hvar við stöndum þá í skattlagningu á bækur í Evrópu, hvort við verðum ekki meðal þeirra hæstu í skattlagningu á bækur.

Síðan hitt, vegna þess að hv. þingmaður er jú fyrrverandi menntamálaráðherra og ekki bara vel að sér um stöðu bókaútgáfunnar og tónlistarinnar heldur líka stöðu fjölmiðlanna, þá á þessi skattprósenta við um dagblöðin í landinu. Við búum á litlu málsvæði þar sem er býsna erfitt að halda uppi öflugri dagblaðaútgáfu sem við höfum þó haft miklu ríkulegri en höfðatalan gefur kannski tilefni til. Hefur hún ekki líka áhyggjur af þessari skattahækkun á hana, ég tala nú ekki um ef annar áfangi fylgir svo í kjölfarið á næsta ári upp í 14%?