144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða ríkisfjármálin að undanförnu út af fjárlagafrumvarpinu og sú umræða hefur verið alveg prýðileg, held ég að ég megi segja. Ég vil þó vekja athygli á því að við höfum kannski ekki rætt stóru málin. Þá er ég að vísa í skuldir ríkissjóðs en vaxtakostnaður núna er þriðji stærsti útgjaldaliðurinn og bara vaxtakostnaðurinn er meiri á hverju ári en sem nemur öllum framlögum til Landspítalans og sjúkratrygginga. Það að við séum með þessar miklu skuldir þýðir einfaldlega að við erum skipulega að koma í veg fyrir að börnin okkar og barnabörnin njóti sömu lífskjara og við. Inni í þessu eru ekki lífeyrisskuldbindingar en að öllu óbreyttu mun Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fara í greiðsluþrot árið 2027 og þá verða greiðslur úr ríkissjóði að lágmarki 20 milljarðar á ári í 10 ár og fara síðan eitthvað lækkandi. Svo er í ofanálag auðvitað breytt aldurssamsetning sem kallar á stóraukna eftirspurn eftir þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu. Þetta eru stóru málin og í rauninni það sem við verðum að ræða því að þetta mun allt saman koma.

Annað risastórt mál sem er eiginlega ekkert rætt, og sem við getum tekið á strax, er Íbúðalánasjóður. Að öllu óbreyttu verður framlag til hans núna 60 þúsund milljónir Það er svipuð upphæð og nemur nýjum Landspítala. Tapið á sjóðnum er 3.000 milljónir á þessu ári. Rekstrarkostnaðurinn er 3.000 milljónir. Sjóðurinn tapar 8 milljónum á dag og vandi hans felst í því að fólk vill ekki vera í viðskiptum við hann. Það eru til leiðir til að stöðva þetta útstreymi fjár. Það snýst um að hætta hefðbundinni starfsemi sjóðsins, hætta útlánum og hætta að halda honum uppi sem banka. Ef við gerum það getum við nýtt þessar 5.700 milljónir sem eru í fjárlagafrumvarpinu í framlögum til hans til annarri og þarfari hluta, t.d. til að greiða niður skuldir eða þá í öll hin mörgu verkefni sem menn vilja fara í, en til þess þarf að taka ákvörðun.