144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það hefur stundum verið sagt að fjárlög séu ekki einvörðungu ákvörðun fjárveitingavaldsins um úthlutun fjármagns heldur í senn pólitísk stefnuyfirlýsing. Mér þótti hv. þingmaður draga upp mjög skýra línu, skýra mynd, af áherslum núverandi ríkisstjórnar og var áhugavert að hlýða á hans ræðu hvað varðar húsnæðismálin sérstaklega, enda hafa menn tekið þau sérstaklega upp hér í andsvörum. Hann dró upp mynd þar sem annars vegar er um að ræða sérlausnir og hins vegar almannalausnir. Það er inn á slíkan vettvang sem mig langar að færa þessa umræðu, nefnilega almenningssamgöngur.

Það var stundum sagt um átak sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði í almenningssamgöngum hér á suðvesturhorninu að það væru jarðgöng suðvesturhornsins, kæmu í staðinn fyrir stórframkvæmdir í samgöngumálum. Gerður var samningur við sveitarfélögin upp á einn milljarð. Það hafa líka verið gerðir samningar við landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu um átak í samgöngumálum. Þessir samningar hafa nú allir verið rýrðir. Samningurinn upp á milljarð hér á suðvesturhorninu hefur verið rýrður um 300 milljónir, hygg ég að sé. Reyndar kann það að eiga við um alla þessa samninga. Þetta eru svokallaðar hagræðingarkröfur sem gerðar voru á þessu ári og námu 82 milljónum, 2015 18,3, en síðan hafa þessir samningar almennt ekki verið færir upp samkvæmt (Forseti hringir.) verðbólgu. Þannig kemur enn rýrnun til. Þá má nefna að (Forseti hringir.) breytingar sem gerðar eru á endurgreiðslu olíugjalds og hafa gengið til þessa samgangna, það á að fella það niður.

Spurning mín er þessi: Hve mikilvægar (Forseti hringir.) eru þessar skerðingar (Forseti hringir.) að mati hv. þingmanns?