144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það verður nú að segja að ekki eru margir úr meiri hluta sjáanlegir hér. Að vísu situr hv. þm. Haraldur Benediktsson í hliðarsal. Ég er ánægð yfir því að hér skuli vera einn þingmaður úr meiri hluta fjárlaganefndar því að þeir hafa ekki sést mikið við þessa umræðu ef satt skal segja.

Hér hafa ýmsir hlutir verið ræddir og mig langar að drepa á fáeinum. Ég kom eitthvað inn á þá í fyrri ræðu minni en, virðulegi forseti, góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Hér hefur verið talað um vinnubrögð í fjárlaganefnd. Mér finnst eftirtektarvert að það eru þrjú álit frá minni hlutanum og í þeim öllum er getið um vinnubrögð sem nefndarmönnum þykja slæleg. Það vill reyndar svo til, virðulegi forseti, að í áliti meiri hlutans er einnig minnst á vinnubrögð og sagt að skýra þurfi betur sambandið á milli fjárlaganefndar og framkvæmdarvalds, því er svona velt upp.

Ef ég les bara beint upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Hins vegar er nauðsynlegt að endurskoða vinnulag við gerð fjárlaga og það er álit meiri hlutans að skilgreina þurfi betur hlutverk nefndarinnar eftir að frumvarpið er lagt fram. Eðlilega þurfa samskipti að vera mikil og góð milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins, en hlutverk fjárlaganefndar er verulegt þegar kemur að vinnu og tillögum eftir að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram.“

Það sem hræðir mig svolítið, virðulegi forseti, er að fjárlaganefnd sé að ýja að því að hverfa eigi aftur til fyrri vegar þegar fjárlaganefnd sat og úthlutaði alls konar framlögum til hinnar ýmsu starfsemi sem er þó ekki beint á fjárlagaliðum. Þetta voru hinir svokölluðu safnliðir. Það hefur verið nefnt hérna fyrr og ég vil endurtaka að það var alveg gífurlega mikil framför á síðasta kjörtímabili þegar ákveðið var að koma úthlutun á þessum fjármunum í betra horf. Þeim var beint í vaxtarsjóði og hina ýmsu sjóði og kunnáttufólk úthlutaði úr þeim en ekki stjórnmálamenn. Það er alltaf hætta á spillingu þegar stjórnmálamenn úthluta peningum beint til einhverra sérstakra. Við eigum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir það. Svo hefur almenningur misjafnan aðgang að þingmönnum þannig að það er mikið ójafnræði í því að úthluta beint úr fjárlaganefnd. Ég vona innilega, virðulegi forseti, að þetta sé rangt hjá mér og nefndin sé ekki að fikra sig aftur að þessu vinnulagi en ég tel rétt að nefna það hér.

Það eru ekki bara vinnubrögð fjárlaganefndar sem minnst hefur verið á og þau gagnrýnd heldur líka vinnubrögð þeirra sem fara nú með völdin í landinu. Það virðist vera eins og þeim sýnist þeir geta bara ákveðið þetta og hitt og gefið út hálfgerðar dagskipanir.

Við höfum dæmið um Fiskistofu sem var allt í einu ákveðið að ætti að flytja frá Hafnarfirði til Akureyrar. Það er ekki einu sinni lagaheimild fyrir því. Manni skilst að það sé eitthvert lagafrumvarp á leiðinni sem heimili ráðherrum að setja niður stofnanir þar sem þeim þóknast. Þetta er ekki gert í neinu samráði við starfsmenn Fiskistofu. Þetta er ekki rætt á Alþingi. Þetta eru vond vinnubrögð. Starfsmenn Fiskistofu hafa ritað bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem þeir biðja nefndina að fara ofan í þetta mál og kanna það. Þeir telja einfaldlega á sér brotið.

Annað dæmi er lögreglan á Hornafirði, þegar hæstv. forsætisráðherra ákvað allt í einu rétt áður en hann skilaði lyklunum að dómsmálaráðuneytinu að virða að vettugi vinnu við breytingar á lögregluumdæmunum og ákvað að Hornafjörður skyldi tilheyra Eskifirði en ekki Suðurkjördæmi. Unnið hafði verið að þeirri breytingu í marga mánuði, að því er mér skilst, og alla rak í rogastans. Þetta var bara ákveðið sisona. Ég gladdist þegar ég heyrði nýskipaðan hæstv. innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, greina frá því í viðtali að hún ætlaði að safna gögnum og kynna sér þetta mál í kjölinn, enda skilst mér að þeir sem málið snertir mest á Hornafirði hafi mótmælt þessu harðlega.

Annað mál af sama toga eða svipuðum er Bankasýslan. Nú kemur allt í einu í ljós að engir fjármunir eru veittir til Bankasýslunnar. Það er auðvitað ekki hægt að reka Bankasýsluna ef ekki eru til peningar til þess. Fjárveitingin í fjárlagafrumvarpinu er sem sagt afnumin umræðulaust.

Síðan langar mig að tala um það sem er að gerast í menntamálum. Það er líka umræðulaust. Það er eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra telji sig geta tekið mjög mikilvægar ákvarðanir um okkar mikilsverða skólakerfi, nú tala ég sérstaklega um framhaldsskólana, án þess ræða það, hvorki við kóng né prest, eins og sagt er. Það fyrsta sem var rætt í andsvörum hér áðan var sú ákvörðun að loka allt í einu á þá sem eru 25 ára og eldri í bóknámi. Mér skilst að það séu 522 heil nemendaígildi. Síðan hefur menntamálaráðherra komið aftur og sagt: Skólarnir geta tekið við þessu fólki en fá enga greiðslu með því. Samt stendur hann hér í ræðustól og hreykir sér eða ríkisstjórninni fyrir að hækka greiðslur á hvern nemanda í framhaldsskóla og segir: Við högum okkur nú betur en þeir sem hér voru við völd áður, sem mokuðu bara fólki inn í framhaldsskólana og juku ekkert við fjármagnið. — Það var eðlilega þegar það gerðist. Það var meira að segja skorið niður enda ekki vanþörf á á síðasta kjörtímabili. Virðulegi forseti, ég ætla að rifja það upp hvernig þetta var þegar fyrri ríkisstjórn tók við 2009. Hvað sat sú ríkisstjórn uppi með? Hún sat uppi með 216 milljarða gat í ríkisfjármálum, á verðlagi þess árs. Ég held að ég hafi séð einhvers staðar að ef þetta væri reiknað á verðlagi ársins 2012 eða eitthvað þá væru það 260 milljarðar. Þetta var ekki lítið að ráða við. Skólarnir unnu með okkur. Það gerðu það allir í landinu. Skólarnir tóku ungt fólk sem missti vinnuna inn í skólana. — Ráðherrann segir nú: Þið getið alveg tekið þá sem eru 25 ára og eldri inn í skólana, þið fáið bara ekkert borgað með þeim. Þá er hann ekkert að hækka gjöld á hvern nemanda, hann er ekki að því. Það finnst mér mjög vont.

Það ergir mig satt að segja mikið í umræðu þessa dagana að verið sé að reyna að klæða veröldina í einhvern annan búning og lýsa henni öðruvísi en hún er. Eins og þegar menn segja: Við ætlum að vera fyrstir til að láta allt útvarpsgjaldið renna til útvarpsins. Hins vegar á að lækka það um 15% á tveim árum, lækka það núna úr 19.400 kr. í 17.000 kr. og svo aftur meira. Og leyfa sér svo að segja og hreykja sér af að nú skuli sko allt útvarpsgjaldið ganga til Ríkisútvarpsins. Mér finnst þetta ekki góður málflutningur.

Það er ekki hægt að neita sér um það eina ferðina enn að nefna náttúrupassann. Nú er frumvarpið komið fram og ekki batnar álit mitt á hugmyndinni þegar ég sé það. Það er líka eftirtektarvert, virðulegi forseti, að það er sama sagan núna og var fyrir ári síðan. Allt of litlir fjármunir eru veittir í fjárlagafrumvarpinu til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Minni hlutinn leggur til að framlagið sem honum er ætlað verði hækkað um 600 milljónir. Ég hugsaði nú sem svo: Er ekki alveg óþarfi að vera að hafa vit fyrir ríkisstjórninni, á ekki bara að leyfa henni að gera aftur sömu mistökin og í fyrra? Þá úthlutaði hún ekki nægum peningum. Því miður bera ráðamenn enga virðingu fyrir leikreglunum. Þeir bera ekki virðingu fyrir því að fjáraukalög eiga að vera fyrir ófyrirséðum útgjöldum. Þess vegna er það mjög ábyrgt af minni hluta fjárlaganefndar að leggja þetta til. Ef þetta verður ekki samþykkt mun væntanlega fara eins og fór á þessu ári, þ.e. ríkisstjórnin sest við ríkisstjórnarborðið og ákveður hvernig þetta eigi allt saman að vera án þess að bera það undir Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið.

Ég þarf aðeins að snúa mér aftur að menntamálunum vegna þess að mig langar til að minnast á það sem mér finnst líka mjög skrýtið í málatilbúnaði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er þetta með að stytta framhaldsskólann í þrjú ár. Ég er alveg sammála því að lækka stúdentsaldur um eitt ár, en ég tel að það eigi að vera fjölbreytileiki í því þannig að einhverjir framhaldsskólar geti hugsanlega verið í fjögur ár og aðrir í þrjú. Ég held að ég hafi heyrt það í umræðunni hér í dag þegar einhver las upp úr stjórnarsáttmálanum að þar stæði að í menntamálum skyldi ríkja fjölbreytileiki — ég skrifaði það niður. Samt sem áður á að ákveða þetta fyrir öll ungmenni í landinu og fyrir alla foreldra í landinu vegna þess að börn í framhaldsskólum eru náttúrlega á framfæri foreldra sinna og krakkar taka kannski ekki einir ákvörðun um í hvaða skóla þeir fara. Það á ekki að gefa þessu fólki neinn möguleika á því að segja að hugsanlega vilji einhverjir krakkar fara t.d. árinu fyrr í Menntaskólann í Reykjavík, en stjórnendur Menntaskólans í Reykjavík hafa beinlínis stungið upp á því við menntamálaráðherra að fara í þróunarverkefni og hleypa krökkum inn í skólann beint úr 9. bekk svo að þau geti verið fjögur ár í skólanum og klárað prófin einu ári fyrr eins og til stóð. Þetta á ekkert að ræða, þetta skal bara vera svona, segir hæstv. menntamálaráðherra.

Ég get ekki heldur neitað mér um, virðulegi forseti, að nefna aðeins þróunarsamvinnuna. Þá kemur aftur orðræðan sem er notuð til þess að blekkja fólk. Nú eiga framlögin að vera eilítið hærri, eiginlega sama upphæð og í fyrra en aðeins hærri. Það á ekki að hækka í hlutfalli við landsframleiðslu eins og lagt hafði verið upp með í ályktun um hvernig ætti að greiða til þróunarsamvinnu sem samþykkt var á þingi 2013 með einu mótatkvæði — til að gleyma því nú ekki — hv. formanns fjárlaganefndar. Það stendur orðrétt í fjárlagafrumvarpinu, virðulegi forseti, að vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs eigi ekki að hækka þetta hlutfall núna. Allt í einu kemur þetta þegar greiða á til þróunarsamvinnu, þá er staða ríkissjóðs orðin svo erfið að það er ekki hægt að hækka hlutfallið.

Svona rétt í lokin, virðulegi forseti, af því að ég var að blaða í þessu riti í dag, sem margir hafa nefnt á undan mér og ég tek innilega undir að er ekki mjög árennilegt eða auðvelt í lestri, þá sá ég að á bls. 457 í kafla um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur allt í einu alveg í lokin, með leyfi forseta:

„Áætlað er að verja 100 millj. kr. til kaupa á varanlegum rekstrarfjármunum.“

Ég spyr: Hvað eru varanlegir rekstrarfjármunir? Eru það ekki borð og stólar og kannski einhverjar vélar? 100 milljónum á að verja í þetta á sama tíma og fjárlög eru skorin niður um 57 millj. kr. Hver er niðurskurðurinn? Úrræði vegna kynferðisofbeldis. Það á að skera þau niður en á móti ætlar Lánasjóður íslenskra námsmanna að verja 100 milljónum til varanlegra rekstrarfjármuna.