144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er nefnilega ágætt að rifja upp í sambandi við RÚV að það blasir ekki einungis við 600–900 millj. kr. niðurskurður á þessum tveimur árum, fólk þarf að átti sig á því sem er að gerast og hvað þetta þýðir í raun. Það vantar um 400–600 milljónir í dreifikerfið, til að lagfæra það. Það hefur ekki fengið viðunandi fjárveitingar í fjölda ára, þannig að ef skerðingin nær fram að ganga er fram undan gríðarleg breyting.

Hv. þingmaður kom inn á þróunarsamvinnuna og við erum sammála um það, held ég, hversu smánarlegt það framlag er. Þjóðir sem standa og hafa staðið í kreppu, Írar eða Bretar, hafa náð því markmiði sem núverandi íslensk ríkisstjórn virðist ekki treysta sér til þess að ná. Í því sambandi hafa meðal annars verið uppi hugmyndir hjá hæstv. utanríkisráðherra um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands eða innlima hana í utanríkisráðuneytið. Sú stofnun hefur verið afskaplega vel rekin og fengið góða dóma fyrir sín störf og verkefnin, ég þekki þau persónulega í augnablikinu, sem er verið að vinna m.a. í Mósambík hafa fengið afar góða umsögn. Ég hef ásamt því starfsfólki sem þar vinnur haft töluverðar áhyggjur af því að þetta verði með allt öðrum hætti ef stofnunin verður flutt í ráðuneytið. Þá verði hún ekki sjálfstæð og þá verði menn svolítið að hafa eftirlit með sjálfum sér og þeim verkum sem þeir sinna í staðinn fyrir að Þróunarsamvinnustofnun er núna sjálfstæð stofnun sem þar til bærar eftirlitsstofnanir hafa eftirlit með. En þegar búið er að innlima hana í utanríkisráðuneytið er það öðruvísi.

Mig langar að vita hug þingmannsins til þess að leggja stofnunina niður í núverandi mynd og flytja hana í ráðuneytið.