144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka formanni hv. fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir að koma með í umræðuna. Það er mikill eðlismunur á því hvort við berum upp fyrirspurnir til ráðherra í fyrirspurnatíma eða þeir koma hingað og gera grein fyrir sínum málum. Ég held að það mundi liðka fyrir umræðunni ef hæstv. ráðherrar gæfu færi á sér, kæmu í andsvör og skýrðu út ákveðna þætti þannig að við þyrftum ekki að vera með getgátur um hvað eigi að gerast milli 2. og 3. umr. Úr því að hér er vísað í starfsáætlun þingsins veit hv. formaður fjárlaganefndar að þessi mál voru færð aftar, þ.e. þau voru ekki lögð fram á þeim tímum sem starfsáætlunin gerði ráð fyrir og þar af leiðandi er eðlilegt að tekinn sé tími hér til að ræða málin. Það er í fullri vinsemd sem við beinum því til hæstv. forseta að haft verði samband við ráðherra (Forseti hringir.) þannig að við getum fengið svör við ákveðnum fyrirspurnum áður en þessari umræðu lýkur svo hún þurfi ekki að verða eitt heimsmetið í viðbót í þessu þingi.