144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fjölmiðlar um víða veröld hafa undanfarinn sólarhring flutt fréttir af nýrri skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings um starfsaðferðir leyniþjónustunnar CIA í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum. Niðurstöðurnar eru þær að CIA beitti umfangsmiklum pyndingum og laug ítrekað að almenningi og stjórnmálamönnum. Þessar upplýsingar hafa orðið kveikjan að miklum umræðum vestan hafs en lítið hefur farið fyrir slíku í mörgum samstarfslöndum Bandaríkjanna. Þannig bendir fyrrverandi ritstjóri franska blaðsins Le Monde á það í grein í The Guardian að ríki Evrópu hafi farið í litla naflaskoðun út af sínum þætti í þessum málum öllum.

Bandarísk yfirvöld ráku net leynilegra fangelsa, m.a. í NATO-ríkjum, og það voru fangaflutningar landa á milli sem gerðu starfsemina mögulega. Þeir fangaflutningar fóru oft og tíðum fram með vitneskju stjórnvalda í viðkomandi löndum. Ísland er meðal þeirra landa sem flogið var um í þessu skyni eins og fram hefur komið en kannski ekki mikið rætt á síðustu árum. Á árinu 2007 lét þáverandi hæstv. utanríkisráðherra skipa starfshóp til að kanna fangaflug um Ísland. Gögn Wikileaks úr bandaríska sendiráðinu hafa síðar leitt í ljós að sú rannsókn var fyrst og fremst sýndarmennska og til þess eins ætluð að láta líta út sem íslensk stjórnvöld væru að gera eitthvað í málinu.

Hæstv. forseti. Ég tel að þessi nýja skýrsla bandarísku öldungadeildarinnar eigi að vera Alþingi hvatning til að taka öll þessi mál til alvarlegrar skoðunar (Forseti hringir.) og vekja okkur til umhugsunar um þá hluti sem leiða af aðild okkar að NATO (Forseti hringir.) og gagnrýnislausum stuðningi við mesta herveldi veraldar.