144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að því að ræða hér málefni Ríkisútvarpsins. Eins og hún kom inn á hefur Framsóknarflokkurinn alla tíð lagt áherslu á starfrækslu Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu. Í mínum huga er Ríkisútvarpið okkur öllum mjög mikilvægt. Að sama skapi er ég ánægð með þá fimm áhersluþætti sem nýr útvarpsstjóri og ný stjórn hafa kynnt, þ.e. áherslu á þjónustu við landsbyggðina, aðgengi að eldra efni, svokallaðri Gullkistu, íslenskt gæðaefni fyrir börn, innlent gæðaefni og öflugri vef. Þrátt fyrir að standa að baki Ríkisútvarpinu getum við samt þurft að staldra við og fara rækilega yfir stöðuna, rekstur, skuldir og lífeyrisskuldbindingar. Hvernig sem á málin er litið er verkefni næstu ára að gæta aðhalds í rekstri Ríkisútvarpsins ásamt því að leita leiða til að greiða niður skuldir.

Framlög til Ríkisútvarpsins fyrir árið 2015 eru samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi 3.680 millj. kr. og samkvæmt breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar 181,9 millj. kr. í viðbót, reyndar að uppfylltum ákveðnum markmiðum. Samtals eru þetta 3.861,9 millj. kr. Í tengslum við breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að gerð verði áætlun fyrir næsta ár og til framtíðar um rekstur Ríkisútvarpsins. Ef í þeirri vinnu koma upp rök sem gefa tilefni til annars tveggja, endurskoðunar á lögum um Ríkisútvarpið eða endurskoðunar á útvarpsgjaldinu fyrir árið 2016 (Forseti hringir.) og til framtíðar, finnst mér sjálfsagt að gera það.