144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir tók upp í gær og varðar svör eða öllu heldur ekki-svör hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við ítarlegri fyrirspurn frá hv. þingmanni með beiðni um skrifleg svör. Hæstv. ráðherra dreifir hér svörum þar sem hann neitar að svara með öllu. Ekki er gerð tilraun til að svara einni einustu af 15 tölusettum spurningum heldur er vísað í það að hæstv. ráðherra muni með vorinu væntanlega leggja fram skýrslu á Alþingi og þar muni að einhverju leyti birtast svör við þessum fyrirspurnum. Þetta gengur ekki, herra forseti, þetta verðum við að taka mjög alvarlega og ég óska eftir því að við ræðum þetta í forsætisnefnd því að slíkt gerir að engu á örskammri stundu rétt þingmanna til að krefja framkvæmdarvaldið um svör á Alþingi ef ráðherrar komast upp með þetta. Þá verður venjan bara sú að koma sér undan því að svara og segja: Ja, við birtum kannski einhverjar upplýsingar síðar, kannski kemur skýrsla í vor eða haust. Og þá er þessi réttur til lítils orðinn sem ráðherrar verða að akta. Þeir verða að gera að minnsta kosti heiðarlega tilraun til að svara öllum fyrirspurnum eins rækilega og þeir geta miðað við þau gögn sem til staðar eru.

Hitt er ekki síður alvarlegt að röksemdafærsla hæstv. ráðherra er sú að ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar, eins og þar segir, „en eins og er vantar of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt sé að draga nægilega marktækar ályktanir um þetta mál“. Hvað er verið með þessu að segja okkur, herra forseti? Að stjórnvöld hafi ekki í höndum trúverðug gögn til að svara spurningum um skuldaniðurfærsluna. Hvað segir þetta um hina fokdýru áróðurssýningu? Þá vantaði ekki gögnin til að fullyrða hvernig þetta kæmi út, í Hörpu á dögunum. Hvort tveggja gengur ekki upp, að sú kynning hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum en að núna, mánuði seinna, geti ráðherra engu svarað. (Forseti hringir.) Mér er nær að halda að ráðherra hafi frekar málsvörn í svari sínu nú en að áróðurssölumessan í Hörpu hafi byggt á einhverjum vitrænum gögnum. Þetta er stóralvarlegt mál, herra forseti, og ég ítreka óskir mínar um að þetta verði rætt í forsætisnefnd.