144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hér aðeins að umtalsefni þær blikur sem við sjáum á lofti í íslensku efnahagslífi í nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands um hagvöxt hér á landi. Það hlýtur að vekja margar spurningar og hlýtur að vera núverandi ríkisstjórn áhyggjuefni um á hvaða braut hún er þegar hún sér tölur sem eru svona langt undir væntingum og langt undir spám þessa árs. Við sjáum tvo ársfjórðunga, þann fyrsta og þriðja, þar sem er beinlínis samdráttur í íslensku efnahagslífi. Núna tel ég að ríkisstjórnin þurfi að staldra við og velta fyrir sér þeirri óvissu sem hún er að skapa og þeim ófriði sem hún er að skapa með ákvörðunartöku sinni og gjörðum. Við sjáum ófrið á vinnumarkaði sem birtist núna í þeirri erfiðu læknadeilu sem verið er að kljást við. Við sjáum líka gríðarlega óvissu í efnahagslífinu, við sjáum óvissu hvað varðar peningastefnuna. Menn fara í stórkostlegar skuldalækkanir upp á 80 milljarða kr. beint úr ríkissjóði án þess að setja undir lekann, þ.e. menn hafa ekki nein svör um það með hvaða hætti þeir ætla að stoppa lekann og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Hvernig gera menn það? Jú, með því að svara spurningum um með hvaða hætti menn ætli að reka hér peningastefnu til lengri tíma. Þar hafa engin svör borist. Þar er því enn einn óvissuþátturinn.

Það er óvissa úti um allt samfélag sem birtist í þessum tölum. Við sjáum líka gríðarlega óvissu hvað varðar velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið sem núna er í gríðarlegu uppnámi þar sem menn geta ekki svarað einföldum spurningum um hvort þeir ætli að verða við því ákalli að byggður verði upp húsakostur spítalans. Menn sjá gríðarlega óvissu í því og gliðnun líka á milli tekjuhópa í samfélaginu þar sem ríkisstjórnin er snögg að bregðast við til að létta álögum af þeim sem mest hafa en síðan finnst henni að sama skapi auðvelt að svara þeim gjörðum sínum með því að auka álögur (Forseti hringir.) á þá sem lægstar hafa tekjurnar eins og verið er að gera með virðisaukaskattinn á matvæli og við ræðum hér á eftir. Það eru blikur á lofti, þessi ríkisstjórn er að skapa ófrið, þessi ríkisstjórn er að skapa óvissu og hún birtist í þessum hagtölum.