144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Þingmaðurinn kom inn á ýmislegt í ræðu sinni og þar á meðal eðli skattlagningar og hvernig við skattleggjum ýmsa hluti og höfum í huga afleiðingar til dæmis áfengis, en áfengisneysla kostar samfélagið á öðrum endanum, eins og í heilbrigðiskerfinu. Skattar hafa verið eitur í beinum hægri manna í gegnum tíðina. Menn hafa haft allt á hornum sér í þeim efnum og viljað ná inn tekjum með öðrum hætti, með beinni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og ýmiss konar þess háttar beinum sköttum. Félagshyggju- og vinstri menn hafa frekar viljað dreifa skattbyrðinni eftir efnum og aðstæðum.

Nú er á lofti ýmislegt varðandi endurskoðun á þessari hugmyndafræði hægri manna og hafa hægri menn komið fram með ýmsar fræðikenningar í þeim efnum, að skattar séu ekki alslæmir og það sé hægt að beita þeim við hagstjórn og beita þeim varðandi ýmis mál eins og sykurskattinn. Sykur hafi áhrif á heilsufar fólks og því sé ágætt að það sé aukalega skattur eða vörugjöld, eins og var hjá okkur, á sykri til að mæta kostnaði á öðrum enda í samfélaginu. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til svona skattlagningar og endurskoðunar hægri manna á viðhorfum sínum til skattlagningar og til þess hvernig jöfnuður hefur verið endurskilgreindur af hægri mönnum, að hann skili hagvexti til samfélagsins.