144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég spurði nefndarritara rétt áðan hver staðan væri núna í plús eða mínus á þessum tekjuöflunarfrumvörpum. Niðurstaðan er sú að eftir allar breytingartillögurnar sem við stöndum að í dag erum við með hallalaus fjárlög upp á 4,3 milljarða. Við skulum ramma þetta inn, svona er staðan er núna, þetta er það sem við höfum úr að spila ef við ætlum að forgangsraða fé í þau verkefni sem landsmenn klárlega vilja setja í sem er örugg heilbrigðisþjónusta.

Við erum með 4,3 milljarða kr. Hvað vantar í heilbrigðiskerfið? Hvaða útgjöld eru nauðsynleg umfram það sem er í tekjuöflunarfrumvörpunum? Þetta hefur komið skýrt fram hjá forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana um allt land og niðurstaðan er sú að það sem vantar umfram það sem hefur verið lagt inn til að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu er 3,1 milljarður. Það er hægt að ná hallalausum fjárlögum sem virðist vera forgangur nr. eitt hjá ríkisstjórninni og samt sem áður eru eftir 4,3. Ef 3,1 milljarður væri notaður væru eftir 1,2 milljarðar þannig að við værum enn þá með vel hallalaus fjárlög.

Hvað með tekjuöflun inn í ríkissjóð í formi matarskatts? Eins og tekjuöflunarfrumvarpið lítur út eftir allar mótvægisaðgerðirnar sem ríkisstjórnin virðist ætla að fara í og breytingartillögur nefndanna stöndum við samt í því, segir mér hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að matvælaverð muni hækka um 1–2%. Hvað kostar að lækka þetta? Er einhver önnur leið, einhver mótvægisaðgerð sem ríkisstjórnin hefur ekki reynt til að lækka matvælaverð á móti þessari hækkun sem neðra þrep virðisaukaskattsins veldur? Það er verið að fara úr 7% í 11%. Já, þær leiðir sem ríkisstjórnin virðist ætla að fara hjá þeim sem minnst mega sín eru meðal annars að hækka barnabætur um 11% sem höfðu verið lækkaðar á síðasta ári um 11% þannig að í raun erum við bara að fara aftur á sama stig og við vorum á. Þetta er það sem hún ætlar að gera og segir þar af leiðandi að kaupmáttur barnafjölskyldna muni aukast um 1%. Niðurstaðan er samt sem áður sú að svona mótvægisaðgerð er hriplek. Það eru margir foreldrar í þessu samfélagi sem fá ekki barnabætur. Öryrkjar eiga heldur ekki að fá sitt í þessari hækkun, þeir eiga að fá 3% hækkun í staðinn fyrir 3,5% eins og var í frumvarpinu. Talan var lækkað í nefndinni. Öryrkjar fá ekki mótvægisaðgerðir sem samsvara þessari matarhækkun.

Hvað með eldri borgarana, ellilífeyrisþega? Ekki heldur. Mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar varðandi hækkandi matvælaverð er hriplek. Er hægt að gera eitthvað annað og hvað væri skilvirkast að gera? Það er líka eitt leiðarljós þessarar ríkisstjórnar í öllum þessum breytingum, í fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvörpunum sínum, að vera skilvirk. Og hvað er skilvirkast að gera þegar kemur að lækkun matvælaverðs?

Það kom mjög skýrt fram í skýrslu sem forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins lét gera 2006 að, með leyfi forseta, „engin ein aðgerð sé jafn árangursrík til að lækka matvöruverð og að draga verulega úr þeirri innflutningsvernd, sem innlend búvöruframleiðsla nýtur, með því að lækka tolla og rýmka aðgang innfluttrar vöru að innanlandsmarkaði, hvort tveggja svo um munar“. Með því að lækka svo um munar tolla og innflutningskvóta á matvæli er víst, aftur með leyfi forseta, að „engin ein aðgerð sé jafn árangursrík til að lækka matvöruverð og að draga verulega úr þeirri innflutningsvernd, sem innlend búvöruframleiðsla nýtur …“

Þetta er tillaga sem við píratar höfum lagt núna fram sem breytingartillögu við tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar, að þetta væri mótvægisaðgerð, fella úr gildi tolla og kvóta á innflutt matvæli. Það verða náttúrlega neikvæð áhrif af þessu. Jákvæðu áhrifin eru hins vegar þau að þetta mun lækka matvælaverð um þau 1–2% sem heildarpakki ríkisstjórnarinnar mun hækka það um. Þessi mótvægisaðgerð mun nýtast öllum. Þetta er ekki hriplek aðgerð. Allir munu njóta hennar, sama hvort þeir fá barnabætur eða ekki, sama hvort örorkulífeyririnn þeirra er hækkaður eða ekki, minnihlutahópar sem fá ekki aðrar mótvægisaðgerðir munu njóta þessarar mótvægisaðgerðar. Allir munu njóta þessarar mótvægisaðgerðar.

Þetta er líka árangursríkasta leiðin og þetta er skilvirk leið. Það er skilvirkt að fella úr gildi innflutningshindranir á matvæli, tolla og kvóta. Það er skilvirk leið. Innflutningsverðið skilar sér ekki nema 60% eða svo til búvöruframleiðenda. Það sem það kostar neytendur skilar sér á að giska 60% í ígildi innflutningsverðmætisins til búvöruframleiðenda þannig að hægt væri að nota skilvirkari skatta til að ná í það ígildi þessarar tollverndar í gegnum þessa óskilvirku skatta og skila því til búvöruframleiðenda. Það gæti ríkisstjórnin hæglega gert og það uppfyllir algerlega stefnu hennar og þau leiðarljós sem eru í þessum tekju- og fjárlagafrumvörpum.

Annað sem væri hægt að gera er að afnema virðisaukaskattsundanþágur. Það er lítið atriði en samt sem áður einhvern veginn risastór hræsni í þessu öllu saman að á sama tíma og verið er að afnema virðisaukaskattsundanþágurnar af ferðaþjónustu og ýmsum atriðum er sumum haldið. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Ben. sagði í andsvari við mig að hann væri ekki hlynntur því að hafa matvæli undanþegin virðisaukaskatti af því að það væri ekki skilvirkt. Það er ekki skilvirkt að hafa svona margar undanþágur og ríkisstjórnin er núna að fækka öllum þessum undanþágum af virðisaukaskatti. En hvaða undanþága situr eftir? Undanþága af laxveiði. Þar er hræsni í gangi. Það er hægt að afnema þessa undanþágu. Við píratar höfum ásamt þingmönnum úr öllum flokkum minni hlutans lagt fram breytingartillögu um að afnema þetta. Þessi undanþága kom inn 1990. Ríkisskattstjóri skilgreindi þá að ef í veiðileyfinu væri að maður borgaði meira fyrir hvern fisk sem maður veiddi væri það virðisaukaskattsskylt, þá væri það nefnilega vörusala, sala á matvælum. Ef það væri fast gjald óháð afla eða óháð því sem væri verið að veiða væri þetta fasteignaleiga. Þá væri maður að leigja fasteign með því að fara út í ána og veiðileyfið væri fasteignaleiga á ánni.

Hvað segir í undanþágukafla virðisaukaskattslaga? Í 8. lið 2. gr. segir að fasteignaleiga sé undanþegin en svo segir í kjölfarið að þó sé skattskylt að leigja hótel- eða gistiherbergi, tjaldstæði og ýmislegt annað í skemmri tíma en mánuð. Menn mega kalla þetta fasteignaleigu ef þeim sýnist en þetta er samt skattskylt af því að þetta er í rauninni ekki fasteignaleiga. Menn eru að leigja þessa þjónustu.

Hið sama á að sjálfsögðu við þegar menn eru með veiðileyfi í á í einn, tvo, þrjá eða nokkra daga. Menn geta litið á það hjá skattinum eins og þeim sýnist sem fasteignaleigu en við ætlum samt sem áður ekki að undanskilja það þessu gjaldi rétt eins og með hótelherbergi.

Um það er breytingartillaga þingmanna allra minnihlutaflokkanna. Þessi skattstofn er ekki stærsti skattstofninn sem við höfum. Hann er samt sem áður 2 milljarðar. Þetta er 2 milljarða kr. skattstofn sem gæti skilað inn 100–200 milljónum. Þegar við horfum fram á að það vantar 13% upp á til að veita nauðsynlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu getum við ekki litið fram hjá því. Menn geta ekki sagt að þeir séu að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu ef þeir slá svona út af borðinu. Menn geta heldur ekki sagt að þeir séu að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu þegar þeir standa með fjárlög í plús upp á 4,3 milljarða og heilbrigðiskerfið bráðvantar 3,1. Þá geta menn ekki sagt að þeir séu að forgangsraða í heilbrigðiskerfið, þeir eru að forgangsraða í það að vera með enn þá meiri hallalaus fjárlög en þeir væru annars með. Það er ekki að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins.