144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvort kerfið verður einfaldara við það að kasta netinu víðar og ná inn fleiri þáttum í virðisaukaskattskerfið sem hafa hingað til verið undanskildir þá get ég ekki sagt til um það, en það verður skilvirkara. Það eru tvö hugtök sem menn eru að leika sér með þarna, að kerfið sé einfalt og að það sé skilvirkt, þau fara oft saman en ekki alltaf. Í þessu tilviki gera þau það kannski ekki en kerfið verður klárlega skilvirkara, þ.e. þú nærð meira inn og undanþágurnar eru ekki til staðar. Hvort það gerir kerfið skilvirkt að það sé styttra á milli þrepanna, neðra þrepsins og þess efra, veit ég hreinlega ekki. Ég veit að ríkisstjórnin segir það og ég veit að þeir bera fyrir sig tölur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þannig að þetta er sá leikur sem þeir eru að spila, þetta er þeirra skattstefna, að gera skattkerfið skilvirkara og gera skattkerfið einfaldara. Við erum að leggja til að kasta netinu örlítið víðar til að ná þessari laxveiði sem hefur verið í ákveðinni „loophole“, á undanþágu, vegna þess að það er verið að skilgreina þetta sem fasteignaleigu. Það er náttúrlega mjög frjó hugsun að kalla veiðileyfi í á í einn, tvo, þrjá daga fasteignaleigu, menn eru mjög frjóir hjá ríkisskattstjóra. En það mundi þá detta inn í þetta og þar af leiðandi verður skatturinn skilvirkari. Í rauninni fer ég eftir þeim leikreglum sem fjármálaráðherra og ríkisstjórnin leggur upp með. Þeir segja að það sé skilvirkt að afnema undanþágur. Hérna er ein tillaga um það hvernig við getum afnumið undanþágu á þessum veiðum og fengið inn meiri tekjur og þeir segja að þeir vilji hafa skilvirka og árangursríka skatta. Með því að afnema tolla og kvóta á matvæli er það skilvirkt og það er árangursríkasta leiðin til að lækka matvælaverð, sem þeir eru að hækka. Prófum það, þetta er mótvægisaðgerð og hæstv. fjármálaráðherra sagðist vera tilbúinn til að hlusta á allar mótvægisaðgerðir.