144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það virðingarvert af þingmanninum að setja sig í spor ríkisstjórnarinnar og reyna að tala mál sem hún skilur. Ég er þeirrar skoðunar að hún skilji ekki mjög margt og vilji ekki hlusta. Mér sýnist að hér sé frekar verið að hækka virðisaukaskatt á nauðsynjar og það sem við kaupum á hverjum degi og allir þurfa að kaupa á hverjum degi og sem mótvægisaðgerð á að lækka eitthvað sem fólk kaupir kannski á 5–15 ára fresti og sumir hafa alls ekki efni á að kaupa. Ég er sammála því að ef þetta verður gert víðar verður kerfið kannski einfaldara. Það má segja það.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að hann hefði fengið þær upplýsingar hjá formanni efnahags- og skattanefndar, held ég að hann hafi sagt, að þessi hækkun á matarskattinum mundi leiða til 1–22% hækkunar á matarverði. Getur það verið rétt að ég hafi — (JÞÓ: Heildarpakkinn úr tekju- og útgjaldafrumvarpinu.) Heildarpakkinn úr tekju- og útgjaldafrumvarpinu. Síðan segir þingmaðurinn að hann leggi til mótvægisaðgerðir sem eru að fella niður tollkvóta og það, sem mun þá lækka heildarpakkann á sama hátt, en hann segist ekki hafa fengið þær upplýsingar sem hann þurfti til að vinna breytingartillögu sína til enda. Ég hef áhuga á að vita hvernig stóð á því.