144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún er vel að sér í neytendamálum og ræddi hér sykurskattinn. Hann var vissulega settur á á síðasta kjörtímabili, þá var leitað ýmissa leiða til að auka tekjur ríkissjóðs og sykurskattur var einn af þeim sköttum sem var valinn, annars vegar til tekjuöflunar en hins vegar af því að það var líka vel réttlætanlegt út frá lýðheilsusjónarmiðum. Þannig bárum við okkur að, við reyndum að tryggja að nýir skattar hefðu einhvern tilgang og væru heppilegir. Við þekkjum neysluskatta, t.d. á áfengi og tóbaki út frá lýðheilsusjónarmiðum. Við þekkjum mengunarskatta til að draga úr hvötum fólks til að menga og ég held að það sé leitun að fólki utan þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem skilur ekki mikilvægi sykurskattsins. Þar má vísa til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en það þarf ekki að fara alla leið upp á það stig. Það eru miklar áhyggjur af því innan heilsugæslunnar á Íslandi að við eigum fram undan sprengju í álagi á heilsugæsluna vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Þar eru ýmsir hjarta- og æðasjúkdómar sem og sykursýki.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, það var vandamál að þessi skattur var í raun ekki nógu hár. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Væri ekki eðlilegra núna að nota tækifærið þegar verið er að gera ýmsar breytingar og hækka hann fremur en að afnema hann?