144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, sú sem hér stendur hefur sagt, og sagði held ég síðast í dag eða í gær, að þessi ríkisstjórn þyrfti mótvægisaðgerð við sjálfa sig vegna þess að það er orðið svo yfirgengilegt hvernig allt sem framkvæmt er virðist þurfa eitthvert mótvægi. Það hefur þær neikvæðu afleiðingar að það þarf að koma til móts við það. Það er mjög sérstakt að meira og minna sé ekki hægt að leggja fram neinar tillögur öðruvísi en að slíkt sé gert. Það þyrfti að taka það saman. Það hefur ekki verið gert í fjárlaganefnd og ég hef ekki heldur heyrt að það hafi verið gert í efnahags- og viðskiptanefnd. Það má þó vera. Einhvern tímann heyrði ég milljarðinn nefndan vegna skuldaniðurfærslunnar einnar. Síðan erum við að tala um tæplega 2,5 milljarða í Íbúðalánasjóð og svo er þetta út um ditten og datten í kerfinu eins og hv. þingmaður sagði réttilega. Það er vel þess virði að taka það saman. Kannski er hægt að mæla það í einhverjum hluta og öðrum ekki. En það eru einhverjir milljarðar sem koma augljóslega fram í tekjumissi í þessu frumvarpi sem við erum hér að tala um vegna afnáms vörugjalda og annars því um líkt sem er svo verið að búa til á móti virðisaukaskattshækkuninni.

Við höfum séð það bæði með gistinguna og annað sem núverandi ríkisstjórn er að gera að auðvitað hefur stór hluti af þeim málum sem tekin hafa verið fyrir á þessu haustþingi, og líka í fyrra, meira og minna verið mál sem núverandi ríkisstjórn stoppaði og sat svo uppi með að hún þurfti að afgreiða vegna þess að þetta voru ekki hápólitísk mál, heldur jafnvel bara EES-reglugerðir eða eitthvað slíkt. Það hefur komið svolítið í bakið á henni og (Forseti hringir.) það er alveg ljóst að mótvægisaðgerðirnar eru allt of margar.